„Óvissan er gríðarlega mikil“

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útlit er fyrir að landsframleiðslan dragist saman um tæp 9% á árinu vegna kórónuveirufaraldursins. Útflutningur minnkar um rúmlega 27%, einkaneysla dregst saman um 7% og heildarfjármunamyndun um tæp 18%.

Þetta kemur fram í þjóðhags- og verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans, sem er gefin út tvisvar á ári. Spáin ber að þessu sinni yfirskriftina efnahagsáfall aldarinnar og gildir fyrir árin 2020 til 2022.

Fram kemur í spá Landsbankans að samneysla og fjárfestingar hins opinbera muni aukast verulega, auk þess sem innflutningur dragist saman um tæp 23%. Samdráttarskeiðið verður stutt en efnahagsbatinn hægur. Spáð er 5% hagvexti á næsta ári og um 3% árið 2022. 

Ferðamenn rýna í kort og strætóleiðir.
Ferðamenn rýna í kort og strætóleiðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gert er ráð fyrir um hálfri milljón ferðamanna í ár, 1,2 milljónum erlendra ferðamanna á næsta ári og 1,5 milljónum árið 2022. Atvinnuleysi mun aukast mikið og verður að meðaltali um 9% á þessu ári en lækkar í 6% árið 2022. Þrátt fyrir fall í útflutningi verður afgangur af viðskiptajöfnuði í ár vegna samdráttar í innflutningi.

Verðbólgan fer lítillega yfir markmið á seinni helmingi ársins vegna veikingar krónunnar en verður að meðaltali 2,6% árin 2021-2022, samkvæmt spánni. Stýrivextir lækka í 0,5% og verða lágir út spátímann.

Óvissa um þróun efnahagsmála næstu misseri er gríðarlega mikil í ljósi aðstæðna vegna faraldursins og bendir sviðsmyndagreining til þess að hagvöxtur á næsta ári verði á bilinu 2-8%.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Páll Matthíasson forstjóri …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar. mbl.is/Sigurður Unnarsson

Tvær mismunandi sviðsmyndir

„Það verður seint lögð of mikil áhersla á að óvissa er gríðarlega mikil á þessum fordæmalausu tímum, bæði hvað varðar þróun faraldursins sjálfs og efnahagslegar afleiðingar hans. Í grunnspá okkar gerum við ráð fyrir að efnahagsbatinn hefjist á seinni helmingi ársins samhliða því sem faraldurinn gengur niður án þess að verulegt bakslag komi í baráttuna gegn veirunni. Þar er þó engan veginn á vísan á róa,“ segir í inngangi spárinnar.

Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala.
Glímt við kórónuveirufaraldur á Landspítala.

„Í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir höfum við því þróað tvær sviðsmyndir. Í annarri þeirra er gert ráð fyrir talsvert neikvæðari þróun, að veiran blossi upp að nýju eftir að fyrsta bylgjan er um garð gengin. Efnahagsbatinn fer því seinna af stað og verður töluvert veikari á næsta ári en gert er ráð fyrir í grunnspá. Við birtum einnig bjartsýnni sviðsmynd þar sem gert er ráð fyrir hraðari efnahagsbata í heiminum og sterkari eftirspurn í helstu viðskiptalöndum okkar. Sú sviðsmynd gerir ráð fyrir að þróun skilvirkrar meðferðar og/eða bóluefnis gegn Covid-19 gangi talsvert hraðar en nú er útlit fyrir,“ segir einnig í innganginum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK