Hugmyndafræðin að baki Lindarhvoli hafi gengið upp

Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, fulln­ustu …
Lindarhvoll ehf. var stofnað til þess að annast um­sýslu, fulln­ustu og sölu á eign­um rík­is­sjóðs. mbl.is

Ríkisendurskoðun hafði til athugunar hvort frekar hefði átt að fela Seðlabanka Íslands eða annarri stofnun að fara með sölu stöðugleikaframlagseignanna heldur en Lindarhvoli. Niðurstaða þeirrar athugunar var að ekkert hefði komið fram sem benti til þess að annar háttur hefði orðið skilvirkari.

Þetta kemur fram í niðurstöðukafla skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit með framkvæmd Lindarhvols ehf. á samningi sem fjármála- og efnahagsráðherra gerði við félagið um umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaframlagseignum.

Mikill fjöldi eigna seldur á skömmum tíma

Lindarhvoll ehf. er sagt hafa sett sér viðamiklar reglur um starfsemi sína sem og metnaðarfull markmið um ráðstöfun eigna á starfstíma sínum. Ríkisendurskoðun segir reglurnar hafa verið skýrar og í samræmi við markmið.

Almennt er talið að Lindarhvoll hafi fengið viðunandi verð fyrir eignir sem félagið seldi og ekki voru gerðar athugasemdir við starfsemi félagsins. „Í stuttu máli má segja að hugmyndafræðin að baki þessu fyrirkomulagi, þótt óvenjulegt hafi verið, hafi gengið upp,“ segir í skýrslunni.

Í skýrslunni segir að mikill hraði hafi einkennt rekstur félagsins og að mikill fjöldi eigna hafi verið innleystur á skömmum tíma. Það hafi verið í samræmi við bæði lög og samning félagsins við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Það er mat Ríkisendurskoðunar að hugsanlega hefðu tekjur af innlausn stöðugleikaframlagseigna orðið meiri ef hraði við sölu þeirra hefði verið minni. Í því samhengi verði þó að hafa í huga að þeir fjármunir sem söfnuðust vegna sölu stöðugleikaframlagseigna voru m.a. nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þannig hafi vaxtakostnaður íslenska ríkisins orðið lægri en ella.

Engin athugasemd við aðkeypta þjónustu

Lögfræðiþjónusta var aðkeypt frá fyrirtækinu Íslögum ehf. og var lögmaður og forráðamaður Íslaga jafnframt skráður prókúruhafi Lindarhvols. Ríkisendurskoðun kannaði hvort bjóða hefði út þá þjónustu í ljósi þess kostnaðar sem hún hafði í för með sér fyrir félagið, en hann nam 80 milljónum króna á starfstíma félagsins.

Stjórn Lindarhvols færði rök fyrir því að persónuleg þekking lögmannsins og reynsla hans hafi valdið því að samningur var gerður við Íslög. Sú þekking og reynsla hafi verið mjög mikilvæg í ljósi þess skamma starfstíma sem félaginu var skammtaður. Var það mat stjórnar Lindarhvols að útilokað hefði verið að ná fram markmiðum í samningi við fjármála- og efnahagsráðherra um að hámarka endurheimtur jafn hratt og raun varð og að lágmarka kostnað ef útboð hefði farið fram.

Ríkisendurskoðun kannaði þær lagareglur sem þarna eiga við og féllst á sjónarmið stjórnar Lindarhvols. Einnig var kannað hvort samið hefði verið um afslátt af tímagjaldi Íslaga og fékk Ríkisendurskoðun þær upplýsingar að verulegur afsláttur hefði verið veittur.

„Í þessu ljósi gerir Ríkisendurskoðun hvorki athugasemdir við stjórnun félagsins né aðkeypta lögfræðiþjónustu af lögmannsstofunni Íslögum ehf,“ segir í skýrslunni.

Kannaði sérstaklega sölu á Klakka ehf.

„Ríkisendurskoðun fór yfir hvernig söluferli á eignum var háttað hjá Lindarhvoli ehf. og hvort kvartanir hafi borist vegna þeirra. Gerðar hafa verið athugasemdir við eina eignasölu, en það er sala á eignarhlut og nauðasamningskröfum Klakka ehf. Af þessum sökum hefur Ríkisendurskoðun kannað sérstaklega umrædda eignasölu.“

Í ljós kom að hlutafé og nauðasamningskröfur Klakka voru settar í opið söluferli á þann hátt að senda skyldi tilboð á tölvupóstfang í samræmi við útboðsgögn. Þrjú tilboð bárust og var hæsta tilboði tekið. Sama aðferð var viðhöfð við sölu flestra eigna Lindarhvols.

Að mati Ríkisendurskoðunar verður ekki annað séð en að framkvæmd útboðsins hafi verið í samræmi við það sem almennt tíðkaðist við framkvæmd útboða sem þessara.

Stjórn Lindarhvols var spurð hvort til greina hefði komið að fá óháð fjármálafyrirtæki til að annast söluna en stjórnin benti á að félaginu hefði verið ætlað að annast allar sölur sjálft, nema eignir sem væru á markaði. Í þeim tilvikum hefði verið leitað til fjármálafyrirtækja. Þá hafi það verið undantekning að leita til Ríkiskaupa.

Að fengnum skýringum stjórnar Lindarhvols og athugun á gögnum félagsins voru hvorki gerðar athugasemdir við söluaðferðina né söluverð eignarinnar og er þá aftur vísað til þess skamma starfstíma sem félaginu var markaður.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK