Óeðlileg leynd um ráðstöfun hundraða milljarða króna

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, telur það ekki standast skoðun að leynd hvíli yfir umsýslan hundraða milljarða króna af almannafé. Eggert Jóhannesson

„Við erum að tala um nokkur hundruð milljarða af almannafé sem svo gott sem algjör leynd ríkir yfir um hvernig var sýslað með, hvaðan þeir komu og í hvað þeir fóru,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, um leyndina sem hvílir yfir eignum sem féllu í skaut ríkisins vegna greiðslu á stöðugleikaframlögum í tengslum við afnám haftanna.

„Og mér finnst það óþægilegt, svona miðað við það að varsla almannafjár ætti að vera opin, aðgengileg og gagnsæ, eins og stendur í ákvæðinu um stofnun þessa félags,“ bætir hún við og á þar við félagið Lindarhvol ehf. sem sá um umsýslu, fullnustu og sölu á stöðugleikaframlagseignum samkvæmt samningi sem félagið gerði við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Gerir ekki athugasemd við skýrsluna sem slíka

Síðan félagið var stofnað árið 2016 hefur starfsemi þess verið gagnrýnd fyrir að láta leyndarhyggju frekar en gagnsæi ráða för. Tíu þingmenn lögðu fram beiðni um skýrslu frá embætti ríkisendurskoðanda og var sú skýrsla birt í dag. Hún var til umræðu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem Þórhildur Sunna fer með formennsku.

Á fund nefndarinnar komu Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi, Guðrún Jenný Jónsdóttir, Jón Loftur Björnsson og Grétar Bjarni Guðjónsson frá Ríkisendurskoðun. Þórhildur Sunna segist engar athugasemdir gera við störf ríkisendurskoðanda eða skýrsluna sem slíka heldur einungis leyndina sem hvílir yfir starfsemi Lindarhvols.

Ákvæði um leynd standist ekki skoðun

„Það sem ég er einna helst að velta fyrir mér í samhengi við Lindarhvol eru þessi rök um að það þurfi að hvíla svona mikil leynd yfir öllu saman. Að það sé trúnaðarmál hvaða eignir þetta eru, hvaðan þær koma, hverjir lögðu þær til og svo framvegis,“ segir hún og tekur fram að hún telji að ákvæði um leynd í samningnum sem gerður var á milli Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins standist ekki skoðun.

Hún telur að ákvæðið eigi rætur að rekja til samnings sem Seðlabanki Íslands gerði við kröfuhafana sem létu eignirnar af hendi. Í skýrslu Ríkisendurskoðanda er vísað til tveggja lagaákvæða varðandi leyndina.

Undanþáguregla frá upplýsingarétti almennings notuð

„Í fyrsta lagi er talað um bráðabirgðaákvæði í gömlu lögunum um Seðlabanka Íslands þar sem kveðið er á um leyfi til fjármálaráðherra til að stofna svona hlutafélag um þessar eignir. Þar stendur meðal annars að það félag eigi að hafa gagnsæi að leiðarljósi. Mér finnst það ekki ríma voða vel við þann stranga trúnað um allt sem fer þar fram,“ útskýrir Þórhildur Sunna og heldur áfram:

„Svo er vísað í undantekningarákvæði í upplýsingalögum um að upplýsingalögin nái ekki til einkamálaefna og viðskiptalegra hagsmuna. En það er undanþáguregla frá upplýsingarétti almennings og hana ber að skýra þröngt þannig að það er ekki hægt að nota hana sem forsendu fyrir leynd.“

„Ég ætla alla vega að kafa ofan í þessa leynd og sjá hvaðan hún kemur, hvers vegna hún er og hvort að hún standist,“ segir hún að lokum.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK