Íslandsbanki lokar útibúum á Granda og Höfða

Íslandsbanki lokar nú tveimur útibúum í Reykjavík og er aðeins …
Íslandsbanki lokar nú tveimur útibúum í Reykjavík og er aðeins eitt eftir. mbl.is/Hjörtur

Íslandsbanki ætlar að loka tveimur útibúum sínum á höfuðborgarsvæðinu á næstunni og verður þar með aðeins eitt útibú bankans áfram opið í Reykjavík og samtals þrjú á höfuðborgarsvæðinu.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að bankaþjónusta hafi breyst mikið á undanförnum árum. Þá hafi kórónuveirufaraldurinn flýtt þessari þróun á síðustu misserum og hefur notkun á bankaþjónustu í appi meðal annars margfaldast.

Vegna þessa verður útibúunum á Granda og Höfða lokað og verður útibúið á Suðurlandsbraut hið eina sem eftir verður í Reykjavík. Áfram verður bankinn með afgreiðslu í höfuðstöðvum sínum í Smáranum og útibúinu í Strandgötu í Hafnarfirði.

Edda Hermannsdóttir, upplýsingafulltrúi bankans, segir í samtali við mbl.is að engum verði sagt upp í tengslum við þessar breytingar, heldur færist starfsfólk í útibúið á Suðurlandsbraut og í aðalstöðvarnar. Samtals starfa 15 manns í útibúunum tveimur. Verður nú öll húsnæðislánaþjónusta bankans staðsett á Suðurlandsbraut.

Samkvæmt upplýsingum frá Eddu hefur heimsóknum fyrstu dagana eftir að útibú bankans voru opnuð að nýju eftir faraldurinn fækkað um 70% miðað við sama tíma í fyrra.

Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu verður frá og með 8. júní sameinuð í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka.

Útibúum viðskiptabankanna hefur fækkað mikið undanfarin áratug, en Landsbankinn rekur í dag fimm útibú í Reykjavík auk fyrirtækjamiðstöðvar og tveggja útibúa í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Arion banki rekur í dag þrjú útibú í Reykjavík og einn fyrirtækjakjarna. Þá er Arion með tvö útibú í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka.
Edda Hermannsdóttir upplýsingafulltrúi Íslandsbanka. Mynd/Íslandsbanki
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK