„Mikil útgjöld núna koma fram í skatthækkunum í framtíðinni“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins munu hafa umtalsverð áhrif hér á landi og þannig áætla stjórnvöld nú að áhrif mótvægisaðgerða ríkisins muni hafa 200 milljarða neikvæð áhrif á ríkissjóð á yfirstandandi ári, en það nemur um 7% af vergri landsframleiðslu. Við áföll sem þetta eru mismunandi sjónarmið uppi um hversu mikla fjármuni ríkið eigi að setja í mótvægisaðgerðir og var meðal annars spurt að því á kynningarfundi peningastefnunefndar Seðlabankans í morgun. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri varaði þar við því að setja of mikla fjármuni í sértækar aðgerðir og sagði að útgjöld núna kæmu fram síðar í tekjuöflun ríkissjóðs.

Í fyrirspurnum á fundinum var vakin athygli á því að áhættufælni væri í útlánum hjá íslensku bönkunum og lítið fjármagn væri að flæða á markaðinn. Var spurt hvort ríkið þyrfti að koma með aukinn kraft á fjármálahliðinni.

Hættulegt að „henda of mikið af peningum í sértækar aðgerðir“

Ásgeir svaraði því til að ríkið væri nú þegar að koma með mikið fjármagn inn á markaðinn. Slíkt hefði þó áhrif inn í framtíðina. „Mikil útgjöld núna koma fram í skattahækkunum í framtíðinni.“

Sagði hann hættulegt fyrir ríkissjóð að „henda of miklu af peningum í sértækar aðgerðir í atvinnulífinu“. Það gæti komið illa niður á getu ríkissjóðs til þess að reka samfélagskerfin eins og mennta- og heilbrigðiskerfið. Þá gætu hærri skattar í framtíðinni einnig komið fram í minni hagvexti.

Semji við leigusala, banka og starfsmenn áður en ríkið komi að

Varðandi aðkomu ríkisins og hvað hann teldi rétta úrlausn mála tók hann dæmi af ferðaþjónustufyrirtækjum, sem flest hver eru núna í miklum rekstrarvanda. Sagði hann að eðlilegast væri að þau semdu við leigusala sína og banka um greiðslur og hvernig best væri að leysa úr vandanum. Þar næst að semja við starfsmenn og síðast yrði athugað með aðkomu ríkissjóðs. Sagði hann að ef þessari röð væri öfugt farið myndi leigusalinn til dæmis ekki vilja lækka leiguna því hann sæi fram á að geta fengið greitt þegar ferðaþjónustufyrirtækið fengi greitt frá ríkinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK