Stýrivextir lækka í 1% - 8% samdrætti spáð

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1%.

Stýrivextir bankans hafa aldrei áður verið jafn lágir en lækkunin er í takt við væntingar markaðarins. Hagdeild Landsbankans spáði því að nefndin myndi lækka vexti um eitt prósent.

Íslandsbanki spáði 0,5 prósenta stýrivaxtalækkun.

Nefndin hefur einnig ákveðið að hætta að bjóða upp á 30 daga bundin innlán. Felur það í sér að meginvextir bankans verða virkari og vaxtaskilaboð bankans skýrari. Aðgerðin ætti að öðru óbreyttu að auka laust fé í umferð og styrkja miðlun peningastefnunnar enn frekar.

Yfir 80% fækkun ferðamanna

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála eru horfur á 8% samdrætti landsframleiðslu í ár. Þar vegur þyngst yfir 80% fækkun í komum ferðamanna til landsins. Útlit er fyrir að atvinnuleysi aukist mikið og fari í um 12% á þriðja fjórðungi ársins en verði tæplega 9% á árinu öllu. Samkvæmt spá bankans taka efnahagsumsvif smám saman að færast í eðlilegt horf á seinni hluta þessa árs og spáð er tæplega 5% hagvexti á næsta ári. Óvissan er hins vegar óvenjumikil og þróun efnahagsmála mun ráðast af framvindu farsóttarinnar og því hvernig tekst til við að vinda ofan af sóttvarnaaðgerðum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Olíuverðslækkun vegur á móti lækkun gengis krónunnar

„Verðbólga mældist 2,2% í apríl og hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í desember sl. Gengi krónunnar hefur lækkað frá því að farsóttin barst til landsins en á móti vega mikil lækkun olíuverðs og lækkun matvæla- og hrávöruverðs. Þá hafa verðbólguvæntingar lítið breyst og kjölfesta þeirra í verðbólgumarkmiði bankans virðist traust. Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga lítillega á næstu mánuðum vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar. Aukinn slaki í þjóðarbúinu mun hins vegar vega þyngra þegar líða tekur á þetta ár og horfur eru á að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans. 

Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga hefur gert peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. Lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans munu styðja við efnahagsbata og stuðla að því að hann verði hraðari en ella. Þá hafa aðgerðir í ríkisfjármálum lagst á sömu sveif.

Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

Klukkan 10:00 hefst  vefútsending þar sem Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, greina nánar frá yfirlýsingu peningastefnunefndar og gera grein fyrir efni Peningamála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK