Óþarfi að flýta sér með ferðagjafir

Ljósmynd frá ferð um Fjallsárlón.
Ljósmynd frá ferð um Fjallsárlón. mbl.is/RAX

Andri Heiðar Kristinsson, stafrænn leiðtogi í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir að fólk ætti ekki að þurfa að drífa sig að nota ferðagjafir frá stjórnvöldum jafnvel þótt það vilji nota gjöfina hjá vinsælum fyrirtækjum. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag er hámark sett á það hversu háa upphæð ferðaþjónustufyrirtæki mega fá í formi ferðagjafa. Hvert fyrirtæki getur að hámarki tekið við samanlagt 100 milljóna króna greiðslu í formi ferðagjafa en fyrirtæki sem metið var í rekstrarerfiðleikum 31. desember síðastliðinn getur að hámarki tekið við samanlagt 25 milljóna króna greiðslu í formi ferðagjafa.

Samkvæmt upplýsingum frá ferðamálaráðuneytinu eru takmörkin sett vegna þess að um er að ræða ríkisstyrk sem þarf að vera innan marka sem gilda um slíka styrki.

Ólíklegt að fyrirtæki fari yfir hámarkið

Andri segir aðspurður að auðvelt sé að fylgjast með því hversu mikið hvert fyrirtæki fái og því ætti hámarkið ekki að flækja málið. 

„Það er tiltölulega auðvelt vegna þess að það er haldið utan um þetta miðlægt. Um leið og einstaklingur notar ferðagjöfina sína þá skráist hún í gagnagrunn svo einstaklingur getur ekki notað sömu gjöfina aftur og sömuleiðis er skráð hvar viðkomandi notaði hana svo viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki geti fengið greitt.“

„Það eru auðvitað mörg þúsund ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi svo við …
„Það eru auðvitað mörg þúsund ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi svo við teljum frekar líkur á að þetta muni dreifast,“ segir Andri Heiðar Kristinsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Andri segir að ólíklegt verði að teljast að fyrirtæki muni fara yfir hámarkið. 

„Það eru auðvitað mörg þúsund ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi svo við teljum frekar líkur á að þetta muni dreifast.“

Gengur ekki upp ef allir ætla að nýta gjöfina á sama stað

Ferðagjöfin er rafrænt gjafabréf upp á 5.000 krónur sem verður afhent Íslendingum á tölvutæku formi í gegnum smáforrit í byrjun júní. Gjafabréfin munu í heild kosta ríkissjóð 1,5 milljarða.

Spurður hvort fólk þurfi að hafa hraðar hendur ef það vill nýta sitt gjafabréf hjá vinsælu fyrirtæki segir Andri:

„Auðvitað getum við ekki fullyrt um það. Ef öll þjóðin ætlar að fullnýta þetta hjá sama fyrirtækinu þá gengur það ekki upp en miðað við viðbrögðin sem við höfum fengið er áhugi almennings mjög misjafn. Þetta er svo fjölbreytt flóra að við teljum ekki líklegt að þú þurfir að drífa þig.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK