Hertz í Norður-Ameríku sækir um greiðslustöðvun

Hertz í Bandaríkjunum hefur sótt um greiðslustöðvun.
Hertz í Bandaríkjunum hefur sótt um greiðslustöðvun. AFP

Bílaleigan Hertz í Norður-Ameríku hefur sótt um greiðslustöðvun eftir slæm áhrif kórónuveirufaraldursins á rekstur fyrirtækisins. Alþjóðlegur rekstur fyrirtækisins, meðal annars í Evrópu, Ástralíu og á Nýja-Sjálandi fellur ekki undir greiðslustöðvunina, heldur nær hún eingöngu til Bandaríkjanna.

Fram kemur í frétt Guardian að rekstur félagsins byggi að stórum hluta á bílaleigum sem séu við flugvelli og þegar flugumferð dróst saman snarlega eftir að faraldurinn fór á stjá hafi reksturinn hrunið.

Félagið skuldar 19 milljarða Bandaríkjadala og hjá félaginu á heimsvísu starfa um 38 þúsund manns. Guardian segir að Hertz sé meðal stærstu fyrirtækja sem hafi farið þessa leið vegna faraldursins, en flugfélög í Bandaríkjunum hafa hingað til komist hjá sömu örlögum með milljarða dala stuðningi ríkisins, en slíkt hefur ekki verið í boði fyrir Hertz.

Höfuðstöðvar Hertz eru í Flórída, en stærsti hluthafi þess er milljarðamæringurinn Carl Icahn. Félagið rekur auk þess bílaleigurnar Dollar og Thrifty.

Í kjölfar þess að hafa ekki staðið skil á greiðslum í apríl hófust viðræður Hertz við lánardrottna sína, en lokadagur viðræðnanna var í gær. Fór félagið sem fyrr segir í kjölfarið fram á greiðslustöðvun, en laust fé fyrirtækisins er einn milljarður dala. Floti félagsins er um 500 þúsund bílar, en það hefur lagt til að selja 30 þúsund bíla fyrir lok ársins til að safna fimm milljörðum dala.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK