Milljarðar sem fara ekki úr landi í sumar

Allt að gerast í Húrra. Fólk er að versla heima.
Allt að gerast í Húrra. Fólk er að versla heima. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Satt best að segja hefur verið rosaleg stemning í búðinni. Mars var hörmulegur, apríl allt í lagi en verri en árið áður, en maí hefur verið hrikalega góður hreinlega. Fólk er í stuði, veðurguðirnir hjálpa til og svo er fólk ekki að kaupa föt í ferðalögum erlendis,“ segir Sindri Snær Jensson, eigandi Húrra Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Sumarið er komið, það sér fyrir endann á því versta af heimsfaraldrinum hér á landi og fólk fer í auknum mæli að sjá fyrir sér að það þurfi að kaupa eitthvað. Það getur verið lakk á pallinn, kol á grillið eða einmitt nýir skór og sumarkjóll, eins og fólk kemur til Sindra að gera.

Sindri Snær Jensson, t.v., og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur …
Sindri Snær Jensson, t.v., og Jón Davíð Davíðsson eru eigendur Húrra Reykjavíkur. Valgarður Gíslason

Ljóst er að tómið sem ekki verður fyllt í verslunarferðum erlendis þarf að fylla með einum eða öðrum hætti á Íslandi í sumar. Þörfin er að skila sér inn í verslanirnar og þrátt fyrir svartar horfur fyrir nokkrum vikum treystir Sindri sér því til þess að fullyrða að sumarið verði frábært í sumar: „Ég er tilbúinn að segja það.“

Stórar fjárhæðir sem verður í staðinn varið á Íslandi

Í von um að meta umfang þeirra viðskipta sem Íslendingar hefðu stundað í útlöndum í sumar réðst Rannsóknarsetur verslunarinnar í úttekt fyrir Samtök verslunar og þjónustu. Kom upp úr dúrnum að í júní, júlí og ágúst 2019 greiddu Íslendingar 37 milljarða með greiðslukortum sínum erlendis og þá er ferðakostnaður ekki talinn með. Að breyttu breytanda má ætla að hluta þessarar fjárhæðar verði í staðinn varið á Íslandi, þar sem menn eru hér um sinn upp til hópa innlyksa.

Sindri kveðst þegar finna fyrir því að viðskiptin beinist frekar til þeirra en verslana úti og að þar að auki sé fólk ekki endilega að kaupa föt á netinu frá útlöndum. „Fólk vill koma í flottar búðir og kaupa sér eitthvað fallegt. Í stað þess að fá sér nýja strigaskó í útlöndum kemur það hingað og fær sér eitthvað ferskt,“ segir hann. 

Íslenska krónan hefur veikst verulega undanfarið gagnvart erlendum gjaldmiðlum, sem Sindri er hræddur um að skili sér óhjákvæmilega út í verðið þegar nýjar vörur fara að detta inn. Hann segir verslunina þó enn vera að selja mikið af vörum á gamla genginu sem komu inn fyrir faraldur og jafnvel þegar hækkanirnar rata út í verðið verður það sama uppi á teningnum fyrir Íslendinga ætli þeir að versla beint við erlenda aðilann. Evran kostar einfaldlega 157 krónur en ekki 139.

Allt komið í þokkalegt horf, fyrir utan það sem snýr að ferðamönnunum

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, tekur í svipaðan streng og Sindri um ástandið í verslun. Ekki aðeins má segja að verslunin sé að taka við sér, heldur er hún einfaldlega komin á góðan skrið. 

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Stærstur hluti af verslun hér á landi er kominn í þokkalegt horf, fyrir utan auðvitað það sem snýr að viðskiptum við ferðamenn. Annars segja kortatölur að helstu liðir í verslun séu í ágætishorfi,“ segir Andrés.

Veltan sem Íslendingar séu í venjulegu árferði með í einkaneyslu í utanlandsferðum sé að einhverju leyti að fara að færast inn á innlendan markað, þó að vissulega verði þar líka að gera ráð fyrir minni neyslu sökum óvissuaðstæðna og bágs atvinnuástands.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK