Sá innlendi fyllir ekki í skarð erlenda

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ferðagjafir upp á 5.000 krónur á mann sem Íslendingar munu fá frá stjórnvöldum á næstunni geta skipt miklu máli fyrir einhver ferðaþjónustufyrirtæki, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Innlendi markaðurinn mun þó aldrei ná að fylla skarðið sem sá erlendi hefur skilið eftir sig vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Jóhannes segir eðlilegt að hámörk sem hafa verið sett á það hversu háum upphæðum fyrirtæki megi veita viðtöku í formi gjafabréfa verði skoðuð í meðferð þingsins. 

Táknræn aðgerð sem getur haft heilmikið að segja

„Okkur líst bara ágætlega á þetta. Þetta virðist vera skynsamleg útfærsla að mestu leyti,“ segir Jóhannes um frumvarp til laga um ferðagjöf sem ferðamálaráðherra hefur lagt fram. Samtök ferðaþjónustunnar hafa átt í samstarfi við ráðuneytið um ýmis atriði hvað framsetningu ferðagjafa varðar. 

„Þetta er í fyrsta lagi mjög táknræn og góð aðgerð sem bæði hvetur Íslendinga til þess að ferðast innanlands og nýta sér það sem landið og ferðaþjónustan hefur upp á að bjóða. Svo er þetta upphæð sem getur haft heilmikið að segja inn í einhver fyrirtæki. Þegar tekjufallið er svona mikið þá skiptir allt máli,“ segir Jóhannes. 

Bjóði tilboð gegn nýtingu

„Þó þetta komi ekki í staðinn fyrir það sem við höfum tapað í erlenda bransanum þá er alveg ljóst að þetta hvetur Íslendinga til að ferðast. Úr þessu verður vonandi bæði góð skemmtun fyrir Íslendinga og einhver viðskipti fyrir ferðaþjónustufyrirtæki sem annars hefðu séð fram á að það yrði ekki mikið að gera í sumar.“

Ferðaþjónustufyrirtækin hafa verið hvött til að gefa tilboð á móti nýtingu ferðagjafanna. „Ég held að það sé töluverður vilji til þess hjá fyrirtækjunum að bjóða upp á eitthvað sem fólk sér fram á að vilja nýta sér með þessu framtaki,“ segir Jóhannes. 

Á Þingvöllum er gjarnan krökkt af ferðalöngum. Þeim hefur fækkað …
Á Þingvöllum er gjarnan krökkt af ferðalöngum. Þeim hefur fækkað umtalsvert eftir að kórónuveiran fór að breiðast út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matsatriði hvort og hvenær hámörk séu sett

Í frumvarpinu er há­mark sett á það hversu háa upp­hæð ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tæki mega fá í formi ferðagjafa. Hvert fyr­ir­tæki get­ur að há­marki tekið við sam­an­lagt 100 millj­óna króna greiðslu í formi ferðagjafa en fyr­ir­tæki sem metið var í rekstr­ar­erfiðleik­um 31. des­em­ber síðastliðinn get­ur að há­marki tekið við sam­an­lagt 25 millj­óna króna greiðslu í formi ferðagjafa. Spurður hvort hámarkið gæti sett strik í reikninginn fyrir einhver fyrirtæki segir Jóhannes: 

„Ég á eftir að skoða það hjá félagsmönnum okkar. Það er atriði sem við þurfum að athuga betur. Það er alltaf matsatriði hvort og hvar slík hámörk séu sett svo það er eðlilegt að slík hámörk séu skoðuð í meðferð þingsins.“

Jóhannes segir að Íslendingar séu farnir að horfa til ferðalaga. „Það er hins vegar alveg ljóst að þótt fyrirtæki muni taka Íslendingum fagnandi og séu farin að setja fram ýmis góð tilboð til þess þá er innanlandsmarkaðurinn hérna það lítill að hann fyllir ekki upp í gatið sem erlenda ferðaþjónustan skilur eftir sig.“

Jóhannes hljómar þó bjartsýnn: „Mér sýnist að bæði fólk og fyrirtæki séu svolítið spennt yfir því að gera eitthvað gott úr þessu í sumar og nýta færið sem Íslendingar hafa til þess að ferðast innanlands í eigin landi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK