500 milljóna króna sekt vegna enska boltans

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Símann vegna brota á sáttum gegn skilyrðum …
Samkeppniseftirlitið hefur sektað Símann vegna brota á sáttum gegn skilyrðum í sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við eftirlitið sem tengjast áskriftum að enska boltanum. AFP

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Símann um 500 milljónir króna vegna brota gegn skilyrðum á sáttum sem fyrirtækið hefur á undanförnum árum gert við eftirlitið. Í ákvörðuninni kemur fram að mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör séu við sölu á enska boltanum á Símanum Sport (línulegt áskriftarsjónvarp), eftir því hvort hann er boðinn innan Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift, hafi Síminn brotið gegn þeim skilyrðum sem hvíla á fyrirtækinu.

Brotin eru talin alvarleg og því nemur sektin 500 milljónum króna. 

Skilyrðunum sem Síminn braut er ætlað að vinna gegn því að Síminn geti, í ljósi sterkrar stöðu sinnar á mikilvægum mörkuðum fjarskipta, nýtt hið breiða þjónustuframboð sitt til þess að draga að sér og halda viðskiptum á þann hátt að keppinautar hans geti ekki boðið samkeppnishæft verð eða þjónustu. Er skilyrðunum ætlað að koma í veg fyrir að Síminn geti með þessum hætti takmarkað samkeppni almenningi til tjóns.

Sýn hf. kvartaði upphaflega vegna málsins síðasta vor. Í kvörtuninni var því haldið fram að kynning, verðlagning og skilmálar á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu Símans, einkum á enska boltanum, hafi falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur.

Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi brotið fyrrgreinda 3. gr. í sátt frá 15. apríl 2015 með því að bjóða Heimilispakkann (með margvíslegri fjarskiptaþjónustu) og Símann Sport/enska boltann (línulegt áskriftarsjónvarp) með miklum verðmun og ólíkum viðskiptakjörum. 

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er að verðlagning Símans á enska boltanum sem hluta af Heimilispakkanum hafi lagt stein í götu keppinauta fyrirtækisins og takmarkað möguleika þeirra til að laða til sín viðskiptavini.

Hér má lesa nánar um skilyrðin sem Síminn hefur brotið gegn.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild sinni má lesa hér. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK