Fjárfesta fyrir 1,3 milljarða í Meniga

Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og einn af stofnendum fyrirtækisins.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og einn af stofnendum fyrirtækisins.

Alþjóðlegu bankasamsteypurnar Groupe BPCE, Grupe Crédito Agrícola og UniCredit ásamt núverandi fjárfestum Frumtak Ventures, Velocity Capital og Industrifonden hafa fjárfest í íslenska fjártæknifyrirtækinu Meniga fyrir um 1,3 milljarða íslenskra króna.

Meniga mun nota fjárfestinguna til þess að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins í rannsóknum og þróun á hugbúnaði ásamt því að styðja við sölu og þjónustu fyrirtækisins til að mæta aukinni eftirspurn. Bankarnir þrír eru jafnframt meðal viðskiptavina Meniga að því er segir í fréttatilkynningu.

Við erum gríðarlega ánægð með að bjóða Groupe BPCE og Crédito Agrícola velkomna í hluthafahóp Meniga. Það er stefna okkar að vinna náið með viðskiptavinum okkar í þróun á stafrænni bankaþjónustu og að fá þessa banka inn sem fjárfesta er kjörin leið til að styrkja slíkt samstarf. Við þökkum það traust sem við höfum fengið til að byggja með þeim bankaþjónustu framtíðarinnar,“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri Meninga og einn af stofnendum fyrirtækisins, í fréttatilkynningu.

Alþjóðlegu bankasamsteypurnar Groupe BPCE, Grupe Crédito Agrícola og UniCredit.
Alþjóðlegu bankasamsteypurnar Groupe BPCE, Grupe Crédito Agrícola og UniCredit.

Groupe BPCE er önnur stærsta bankasamsteypa í Frakklandi og er með um 36 milljónir viðskiptavina. Grupo Crédito Agrícola er einn stærsti banki Portúgals og eru viðskiptavinir bankans ein og hálf milljón talsins. UniCredit starfar í 13 löndum í Evrópu og er með starfsemi í 18 löndum til viðbótar víðs vegar um heiminn. Unicredit hafði áður fjárfest í Meniga árið 2018, samkvæmt fréttatilkynningu.

Meniga var stofnað árið 2009 og eru starfsmenn um 160. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 160 fjármálastofnunum og er aðgengilegur yfir 90 milljónum einstaklinga í 30 löndum. Meniga er með skrifstofur í Kópavogi, London, Stokkhólmi, Varsjá, Barcelona og Singapore. Landsmönnum stendur til boða að nýta sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is eða í Meniga-appinu fyrir iPhone- og Android-síma.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK