Forbes fjallar um vöxt Good Good

Stevíusættu sulturnar hafa m.a. selst vel í netverslun Amazon í …
Stevíusættu sulturnar hafa m.a. selst vel í netverslun Amazon í Bandaríkjunum. Árni Sæberg

Vefútgáfa bandaríska viðskiptaritsins Forbes gerir rekstri íslenska matvælaframleiðandans Good Good ítarleg skil í grein sem birt var í dag.

Good Good, sem stofnað var árið 2015, sérhæfir sig í matvælum sem innihalda náttúruleg sætuefni eins og stevíu í stað sykurs. Fyrirtækið hefur m.a. afrekað það að koma vöru sinni í efsta sæti á lista Amazon yfir mest seldu sulturnar í Bandaríkjunum og nýtur meðbyrs vegna vaxandi vinsælda ketó-mataræðis um allan heim.

Fyrr á þessu ári tryggði Good Good sér rösklega 400 milljóna króna hlutafjáraukningu sem nýtt verður til að efla sókn félagsins inn á Bandaríkjamarkað.

Forbes greinir frá að Good Good hyggist auka vöruframboð sitt á Bandaríkjamarkaði og m.a. hefja þar sölu á  sælgætisstöngunum Krunchy Keto sem nú þegar njóta ágætisvinsælda í Evrópu. Hyggst Good Good koma sér upp söluteymi á Vesturströnd Bandaríkjanna og efla það teymi sem þegar heldur utan um söluna á Austurströndinni.

Markaðurinn fyrir kolvetnasnautt og ketónamyndandi (e. ketogenic) mataræði vex hratt, að sögn Forbes, sem vitnar í rannsóknir sem spá 5,5% meðalvexti árlega fram til ársins 2027. Voru sölutekjur Good Good fyrstu fjóra mánuði þessa árs 152% hærri en á sama tímabili í fyrra. Fást vörur fyrirtækisins nú í u.þ.b. 2.500 verslunum í 16 löndum og stefnt að því að sölutekjur nemi samtals 4,6 milljónum dala á þessu ári. ai@mbl.is

Garðar Stefánsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Good Good.
Garðar Stefánsson er stofnandi og framkvæmdastjóri Good Good. Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK