Þungbærasta ákvörðun starfsferilsins

Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins og stærsti eigandi þess.
Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins og stærsti eigandi þess. mbl.is/RAX

Forstjóri Bláa lónsins segir ákvörðunina um að segja upp 403 starfsmönnum fyrirtækisins hafa verið þá þungbærustu sem hann hafi tekið á sínum starfsferli. Það segi sig sjálft að stjórnendur hafi ekki séð aðra kosti í stöðunni.

Unnið hefur verið að því að tilkynna starfsfólki um stöðu fyrirtækisins í vikunni og segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, í samtali við mbl.is að uppsagnirnar nái til allra sviða fyrirtækisins.

Uppsagnirnar ná hins vegar ekki til neins innan framkvæmdastjórnar, sem þó tekur á sig 25% launaskerðingu.

Stefnt er að því að opna allar starfsstöðvar Bláa lónsins 19. júní og segir Grímur að starfsfólk verði beðið að vinna uppsagnarfrest eftir því sem við á. „Við horfum til þess að eiga okkar fólk að í þessu ferli. Við munum kalla fólk til starfa eins og eftirspurn mun bjóða upp á í sumar.“

Grímur vonast til þess að Íslendingar muni nýta sér tækifærið og heimsækja Bláa lónið í sumar. „Við auðvitað bindum vonir við það að fá sem flesta Íslendinga til að upplifa Bláa lónið í sumar. Það er að sjálfsögðu von okkar og trú og við munum reyna að kalla til þeirra um að nýta tækifærið.“

Aðspurður segir Grímur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort Bláa lónið muni nýta sér úrræði ríkisstjórnarinnar um greiðslu launa starfsfólks á uppsagnarfresti.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK