11,4 milljarða afgangur á fyrsta ársfjórðungi

Virði eigna og skulda jókst mikið vegna gengis- og verðbreytinga …
Virði eigna og skulda jókst mikið vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Afgangur viðskiptajöfnuðar við útlönd nam 11,4 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins. Afgangurinn nam 50,9 milljörðum á síðasta ársfjórðungi 2019.

Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands, sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á fyrsta ársfjórðungi 2020 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.

Halli á vöruskiptajöfnuði nam 18,6 milljörðum króna en afgangur á þjónustujöfnuði nam 24 milljörðum króna. Frumþáttatekjur skiluðu 14,2 milljarða afgangi en rekstrarframlög 8,3 milljarða halla.

Viðskiptaafgangurinn var 32,6 milljörðum króna lægri en á sama fjórðungi síðasta árs. Það er sagt skýrast aðallega af umtalsvert óhagstæðari vöruviðskiptum, sem nemur 21,3 milljörðum króna.

Munar þar mest um 26,4 milljarða minni útflutningstekjur, en einnig var verðmæti innfluttra vara lægra um sem nemur 5,1 milljarði. Þjónustuviðskipti voru óhagstæðari um 5,5 milljarða og frumþáttatekjur um 5,3 milljarða. Halli rekstrarframlaga var lítillega meiri eða um 0,5 milljarðar.

Hrein staða við útlönd jákvæð um 692 milljarða

Hrein staða við útlönd var jákvæð um 692 milljarða, eða 23,3% af vergri landsframleiðslu, og batnaði um 64 milljarða eða 2,2% af VLF á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.210 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.518 milljörðum.

Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 56 milljarða á fjórðungnum en erlendar eignir jukust um 78 milljarða vegna fjármagnsviðskipta og skuldir hækkuðu um 22 milljarða.

Virði eigna og skulda jókst mikið vegna gengis- og verðbreytinga á ársfjórðungnum, en í heildina leiddu þær til 22 milljarða hækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum lækkaði um 22,5% og á innlendum hlutabréfamarkaði um tæp 18%. Einnig lækkaði gengi krónunnar um 12,4% gagnvart helstu gjaldmiðlum miðað við gengisskráningarvog.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK