Þeir einir gleðjast sem hækkað geta verð

Aðspurður segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, að umrædd sátt Símans …
Aðspurður segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, að umrædd sátt Símans og Samkeppniseftirlitsins setji Símanum of þröng skilyrði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það sem okkur finnst svo öfugsnúið í þessu er að maður hélt að Samkeppniseftirlitið væri sett upp fyrir neytendur en ekki fyrir aðra keppinauta,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta Símann um 500 milljónir vegna brota á sátt sem eftirlitið og Síminn gerðu árið 2013.

Síminn ætlar að áfrýja ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og segir Orri að sáttin sem Síminn hafi gert við eftirlitið sé ekki óljós og Síminn hafi ekki brotið á henni, þótt hún sé barn síns tíma.

„Að markaðsfærsla okkar á enska boltanum núna frá því í fyrra þar sem við erum að lækka verð og auka dreifingu og koma þessari vöru miklu betur og ódýrar til neytenda heldur en áður brjóti gamlar sáttir er með nokkrum ólíkindum og við munum að sjálfsögðu áfrýja þessu. Við erum ósátt við þetta en það sem er verra er að þetta mun að öllum líkindum valda skaða fyrir neytendur.“

„Dregur úr samkeppni og skaðar neytendur“

Orri segir það skjóta skökku við að Samkeppniseftirlitið virðist í þessu tilviki vinna í hag einstaka fyrirtækja en ekki neytenda.

„Það var Sýn sem kvartaði yfir því hvernig við verðleggjum okkar vörur. Þau hafa verðlagt sínar vörur með sama hætti áratugum saman og þá var ekkert athugavert en svo var það allt í einu orðið athugavert þegar við fengum með þennan sýningarrétt. Ég held að þeir einu sem geti mögulega glaðst yfir þessu séu þeir sem geta farið að hækka verð vegna ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins. Þetta bara dregur úr samkeppni og skaðar neytendur.“

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verður þess valdandi að Síminn þarf að hækka verð á meðan hún stendur. Orri segir ekki ljóst hversu mikil hækkunin verður.  Samkeppniseftirlitið setti sérstaklega út á það að mikill verðmunur og ólík viðskipta­kjör séu á sölu á enska bolt­an­um á Sím­an­um Sport eft­ir því hvort hann er boðinn inn­an Heim­il­ispakka Sím­ans eða einn og sér í stakri áskrift.

Samkeppniseftirlitið segir í ákvörðun sinni að brotin séu fólgin í …
Samkeppniseftirlitið segir í ákvörðun sinni að brotin séu fólgin í því að mik­ill verðmun­ur og ólík viðskipta­kjör séu við sölu á enska bolt­an­um á Sím­an­um Sport (línu­legt áskrift­ar­sjón­varp), eft­ir því hvort hann er boðinn inn­an Heim­il­ispakka Sím­ans eða einn og sér í stakri áskrift. AFP

Viaplay notar sömu aðferð

Orri bendir á að erlend félög eins og streymisveitan Viaplay noti sömu aðferð og Síminn hvað þetta varðar.

„Þeir eru með eina vöru með almennu afþreyingarefni og svo eru þeir með íþróttavöru staka. Þetta eru einhver séríslensk sjónarmið hjá Samkeppniseftirlitinu sem við erum algjörlega ósammála og munum fara alla leið með það.“

Heimilispakki Símans hefur verið í boði í fimm ár og er að sögn Orra „margbúið að kæra hann“ en aldrei hefur niðurstaðan verið sú að hann sé ólögmætur.

„Þetta er eitthvað sem er augljóslega er leyft. Það sem verið er að meina þarna er að hækkunin sem varð á Premium að síðasta ári hafi ekki verið nægilega mikil miðað við það sem Síminn Sport kostar stakur. Þessi samtenging er að okkar mati órökstudd og órökrétt. Svona eru viðskipti framkvæmd í öðrum löndum og við teljum að Ísland eigi ekki að halda sér í einhverri fortíð eða stöðu sem hentar ekki neytendum.“  

Forsendur fyrir sáttinni hafa snarbreyst

Aðspurður segir Orri að umrædd sátt Símans og Samkeppniseftirlitsins setji Símanum of þröng skilyrði.

„Það er dýrt að halda henni úti og vegna hennar verður tvíverknaður í kostnaði innan samstæðunnar, það þarf að halda úti alls konar tvöföldum kerfum og svo framvegis. Upphaflega sáttin sem við gerðum árið 2013 við Samkeppniseftirlitið byggði fyrst og fremst á því að dótturfyrirtæki okkar, Míla, hafði mjög sterka stöðu á markaði. Það sem hefur þó breyst er að það félag er komið í minnihluta á suðvesturhorninu þar sem flestir landsmenn búa svo allar forsendur fyrir þessari sátt hafa snarbreyst eins og fram kom í tölum frá fjarskiptastofnun fyrir stuttu. Það að halda uppi þröngum skilyrðum sem byggja á forsendum sem eru löngu úreltar er það sem við höfum beðið um að verði endurskoðað.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK