„Þetta var niðurstaðan og nú höldum við áfram“

Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA.
Guðmundur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars\TBWA. Ljósmynd/Aðsend

Auglýsingastofan Pipar/TBWA ætlar ekki að fara lengra með kæru sína vegna ákvörðunar Rík­is­kaupa um að ganga að til­boði bresku aug­lýs­inga­stof­unn­ar M&C Sa­atchi í verk­efn­inu „Ísland – sam­an í sókn“. Þetta segir Guðmundur Hrafn Pálsson, framkvæmdastjóri Pipars/TBWA. Kærunni var hafnað af kær­u­nefnd útboðsmá­la. 

„Þetta kemur ekkert á óvart en við vissum líka að það skipti miklu máli að klára þetta snemma og koma þessu í gang, hugsa um almannaheill í þessu og koma þessu verkefni af stað. Við vonum bara að Saatchi standi sig vel í því að koma útlendingum aftur til Íslands,“ segir Guðmundur. 

Vanda sig vonandi meira með næsta útboð

Nú bíður Pipar/TBWA einfaldlega eftir útboði í birtingar, að sögn Guðmundar. „Vonandi vanda ríkiskaup sig meira í því að koma því út svo það verði ekkert óskýrt í útboðinu. Við bíðum eftir því að útlendingar komi og fari að hjálpa okkur Íslendingum að komast upp úr þessum samdrætti sem er búinn að eiga sér stað hérna síðustu mánuði.“

Í kær­unni kom fram að Pipar/TBWA teldi að brotið hafi verið gegn lög­um um op­in­ber inn­kaup með þátt­töku M&C Sa­atchi, þar sem m.a. hafi verið brotið gegn jafn­ræðis­reglu lag­anna og auk­in­held­ur hafi verið horft fram hjá sér­stöku hæfi M&C Sa­atchi, sem Pip­ar/​TWBA tel­ur að hefði átt að úti­loka þátt­töku fé­lags­ins í útboðinu. Þá er M&C Saatchi bresk auglýsingastofa sem breska fjármálaeftirlitið rannsakar nú vegna bókhaldsmisferlis sem teygir sig nokkur ár aftur í tímann. 

Standa enn á sínu

Guðmundur segir að Pipar/TBWA standi enn við sína skoðun á málinu sem fram kom í kærunni.

„Við náttúrulega hefðum viljað sjá ýmislegt öðru vísi. Það var ýmislegt sem hægt var að gera athugasemdir við og við gerðum það en þetta var niðurstaðan og nú höldum við áfram.“

Í niður­stöðu kær­u­nefnd­ar­inn­ar seg­ir að þau gögn og upp­lýs­ing­ar sem liggja fyr­ir nefnd­inni beri ekki með sér að M&C Sa­atchi eða ein­stak­ling­ar sem koma fram fyr­ir hönd fyr­ir­tæk­is­ins hafi verið sak­felld­ir með end­an­leg­um dómi fyr­ir svik, spill­ingu eða önn­ur brot. Spurður hvort það ætti þó ekki að vera nóg að fyrirtækið sé til rannsóknar af breska fjármálaeftirlitinu segir Guðmundur:

„Þannig var okkar skilningur og við vitum það að ef þetta hefði verið íslensk auglýsingastofa sem hefði verið undir þessum ámælum þá hefðu hlutirnir verið öðruvísi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK