Margrét Ormslev til liðs við Brunn Ventures

Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir.
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir hefur gengið til liðs við Brunn Ventures, vísisjóð sem hefur fjárfest í 11 íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum. Brunnur Ventures vinnur nú að því að koma á fót átta milljarða vísisjóði (e. venture capital fund) sem bera mun nafnið Brunnur vaxtarsjóður II.

Standa vonir til að ná þátttöku stofnanafjárfesta, eins og lífeyrissjóða, auk annarra fagfjárfesta í verkefnið, að því er fram kemur í tilkynningu.

Margrét er iðnaðarverkfræðingur og lauk jafnframt M.Sc.-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-prófi í orkukerfum og orkustjórnun frá The School of Renewable Energy Science.

Margrét hóf störf hjá Carbon Recycling International sem er alþjólegt fyrirtæki í umhverfistækni árið 2015. Hún hefur setið í framkvæmdastjórn fyrirtækisins frá árinu 2017, nú síðast sem aðstoðarforstjóri. Áður var hún hjá Landsbankanum í ráðgjöf til fyrirtækja og í vöruþróun.

Þar áður hjá verkfræðistofunni VGK. Á undanförnum árum hefur hún verið  í ýmsum stjórnum og ráðum ásamt því að hafa tekið þátt í  verkefnum á vegum atvinnulífs og stjórnvalda. Hún tók nýverið sæti í stjórn Samtaka iðnaðarins. 

Margrét verður ein af sjóðstjórum Brunns, en hún mun auk þess áfram starfa fyrir CRI til næstu áramóta.

„Það er mikill fengur að fá Margréti í hópinn. Reynsla hennar af uppbyggingu og rekstri alþjóðlegs vaxtarfyrirtækis eins og Carbon Recycling International er gríðarlega verðmæt. Að vera í framlínunni að sækja fjármagn og að selja flóknar lausnir til kröfuharðra viðskiptavina er mjög krefjandi. Einnig hefur hún brennandi áhuga á nýsköpun,“ er haft eftir Árna Blöndal, eins stofnanda Brunns Ventures.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK