Lægsta tilboðið aðeins 11% af áætlun

Unnið er að byggingu nýs Landspítala við Hringbraut.
Unnið er að byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. mbl.is/Hallur Már

Tilboð sem opnuð voru nýlega í verkefni sem tengist uppbyggingu nýja Landspítalans við Hringbraut voru öll umtalsvert undir kostnaðaráætlun. Lægsta tilboðið var aðeins 11% af áætluninni og það næsta var tæplega 28% af áætlun. Hæsta boðið var 68% af kostnaðaráætlun, sem sagt vel undir áætlun, en engu að síður rúmlega sex falt hærra en lægsta boð.

Um er að ræða útboð Hringbrautarverkefnisins á yfirferð séruppdrátta fyrir meðferðarkjarna sem verður hluti af nýja Landspítalanum. Í heild er fjöldi sérteikninga í meðferðarkjarnanum 4.700 talsins og verður unnið í samvinnu byggingarfulltrúann í Reykjavík og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Á skoðunaraðilinn að kanna hvort séruppdrættirnir sem lagðir verða fram af hönnuðum séu í samræmi við lög, en meðferðarkjarninn er stærsta bygging á skipulagsreit verkefnisins.

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins Ljósmynd/Aðsend

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins, segir erfitt að átta sig á af hverju þessi mikli munur sé á milli tilboða. Segir hann þetta í fyrsta skipti sem jafn stórt útboð og vel skilgreint fari fram vegna yfirferðar á séruppdráttum. „Vel megi vera að tilboðsgjafar renni blint í sjóinn,“ segir Gunnar. Hann tekur þó fram að allir aðilar eigi að vera vel meðvitaðir um umfangið og kröfurnar, enda sé um lokað útboð í kjölfar forvals að ræða þar sem hæfis- og hæfnismál hafi verið metin.

Spurður hvort hann telji efnahagsástandið spila eitthvað inn í upphæð tilboðanna segir Gunnar að hugsanlega sé staðan ólík milli mismunandi aðila. „Það er ljóst að samdráttur hjá þessum aðilum er verulegur umliðna mánuði sem gæti endurspeglað sig í mikilli samkeppni og lágum verðum.“

Nú tekur við yfirferð tilboðanna og þeirra útreikninga sem þar eru á bak við. Gunnar segir að þá komi í ljós hvort um einhverjar reikningsskekkjur sé að ræða, „sem ég á ekki von á,“ bætir hann við.

Tilboð bárust frá eftirtöldum aðilum í verkið:

  • EFLA hf. kr. 34.780.000.
  • Ferill verkfræðistofa kr. 78.955.300.
  • Frumherji hf. kr. 50.196.000.
  • Hnit verkfræðistofa hf kr. 85.413.100.
  • Verkís kr. 13.818.000.

Kostnaðaráætlun verksins er kr. 125.273.659, en öll verð eru án virðisaukaskatts.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK