Elon Musk vill að Amazon sé skipt upp

Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX.
Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX. AFP

Elon Musk, forstjóri Tesla og SpaceX, vill að tæknifyrirtækinu Amazon verði skipt upp. Fyrirtækið sé í einokunarstöðu, sem sé ekki réttlætanleg. Þetta segir Musk á samfélagsmiðlinum Twitter, þar sem hann er gjarn á að tjá sig um málefni líðandi stundar.

Tilefnið er færsla frumkvöðulsins Alex Berenson, fyrrverandi fréttaritara New York Times. Berenson gaf nýverið út bókina Unreported Truths abour COVID-19 and Lockdowns (Ósagðar staðreyndir um COVID-19 og útgöngubönn) en í bókinni færir hann rök fyrir því að meginstraumsfjölmiðlar hafi ýkt hættuna sem fylgi kórónuveirunni.

Í færslunni birtir Berenson tölvupóst frá Amazon þess efnis að fyrirtækið hyggist ekki leyfa sölu bókarinnar í vefverslun sinni fyrir Kindle-lesbretti á þeim forsendum að bókin sé ekki í „samræmi við stefnu fyrirtækisins“. Fjölmargir brugðust illa við ákvörðun Amazon og var Elon Musk, sem fyrr segir, einn þeirra. „Galið,“ segir Musk og merkir sérstaklega Jeff Bezos, stofnanda Amazon, í færsluna áður en hann heldur áfram og segir rétt að skipta Amazon upp.

Aðeins nokkrum klukkustundum síðar sá Amazon að sér, en haft er eftir talsmanni fyrirtækisins að ákvörðunin um að fjarlægja bókina hafi verið mistök. Hún er því aðgengileg í vefverslun Amazon á ný.

Elon Musk og Jeff Bezos eru keppinautar í geimkapphlaupi einkafyrirtækja. Musk stofnaði fyrirtækið SpaceX tveimur árum áður en Bezos stofnaði fyrirtækið Blue Origin sem einnig vinnur að geimferðum. Hafa þeir síðan skipst á skotum hver á annan en í fyrra gagnrýndi Bezos til að mynda hugmyndir Musks um stofnun nýlendu á Mars og sagði þær fjarstæðukenndar.

Frétt BBC.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK