Eiganda 66°Norður dæmdar 172 milljónir

Eigendum 66 Norður hafa verið dæmdar 172 milljónir, auk vaxta, …
Eigendum 66 Norður hafa verið dæmdar 172 milljónir, auk vaxta, frá félaginu Molden Enterprises, sem átti 66 Norður áður. Tengist málið uppgjöri á kaupréttarsamningi fyrrverandi forstjóra félagsins.

Hæstiréttur hefur dæmt félagið Molden Enterprises Ltd., sem staðsett er á Möltu, til að greiða 66North holding Lux S.Á.R.L., eignarhaldsfélagi í Lúxemborg sem á Sjóklæðagerðina hf., móðurfélag 66°Norður, 172 milljónir. Er það vegna uppgjörs á kauprétti fyrrverandi forstjóra 66°Norður.

Málið nær aftur til ársins 2011, en þá keypti félagið SF II slhf. 51% hlutafé í Sjóklæðagerðinni af Egus Inc. SF II varð síðar BH Holding og framdseldi það kröfur sínar og réttindi til 66North Holding, en Egus varð að Molden Enterprises.

Eigandi Egusar var Sigurjón Sighvatsson en hjónin Helgi Rúnar Óskarsson og Bjarney Harðardóttir eru eigendur 66°Norður. SF II var hins vegar árið 2011 í eigu sjóða Stefnis, en félagið var selt til Helga og Bjarneyjar árið 2012. Sigurjón seldi svo 49% hlutinn sem hann átti eftir til Helga og Bjarneyjar árið 2013.

Við söluna 2011 var meðal annars ákvæði um að seljandinn Egus myndi ábyrgjast að kaupréttur fyrrum forstjóra félagsins, Halldórs Gunnars Eyjólfssonar, væri fallinn úr gildi. Halldór höfðaði hins vegar mál árið 2012 vegna þessa og árið 2014 dæmdi Hæstiréttur að Sjóklæðagerðinni bæri að greiða Halldóri um 110 milljónir.

Í kjölfarið fór Sjóklæðagerðin fram á greiðslu frá seljandanum, sem þá var kominn með nafnið Molden til endurgreiðslu á fjárhæðinni auk vaxta og kostnaðar við framkvæmd dómsins.

Málið var að endingu vísað frá Hæstarétti á þeim grundvelli að Sjóklæðagerðin hefði ekki verið aðili að fyrrnefndum samningi, þótt samningurinn hefði varðað hagsmuni þess. í framhaldinu höfðaði 66North Holding nýtt mál vegna kostnaðarins við uppgjör kaupréttasamningsins sem fallið höfðu á félagið. Töldu dómstólar, þar með talið Hæstiréttur, að núna hefði félagið lögvarða hagsmuni af niðurstöðunni.

Hæstiréttur taldi sannað að krafa á grundvelli samningsins hefði stofnast sem Molden (áður Egus) bæri að greiða Sjóklæðagerðinni og þar með 66North Holding, sem er sem fyrr segir í eigu Helga og Bjarneyjar, sem hafði yfirtekið skyldur og réttindi Sjóklæðagerðarinnar, auk dráttarvaxta.  Er samtals um að ræða tæplega 172 milljónir auk dráttavaxta, en dómurinn er í samræmi við fyrri dóma héraðsdóms og Landsréttar, ef frá er talið að miðað er við annan upphafstíma dráttarvaxta.

Dómur Hæstaréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK