Aunt Jemima hverfur úr hillum

Bæði merki og nafn Aunt Jemima þykir minna á úrelt …
Bæði merki og nafn Aunt Jemima þykir minna á úrelt gildi. AFP

Bandaríski matvælarisinn PepsiCo hefur ákveðið að breyta nafni og vörumerki Aunt Jemima-vörulínunnar vegna tengsla við kynþáttafordóma.

Aunt Jemima-merkið hefur lengi haft sterka stöðu á bandarískum neytendamarkaði en undir það falla einkum pönnukökublöndur og -síróp, auk þurrefnablanda fyrir brauðmeti og grauta sem eiga uppruna sinn í matarhefð suðurhluta Bandaríkjanna. Quaker Foods, dótturfyrirtæki PepsiCo, framleiðir vörurnar.

Aunt Jemima á sér 130 ára sögu og eru umbúðirnar skreyttar með mynd af brosandi svartri konu, en nafnið fékk vörumerkið að láni hjá söguhetju sem oft kom fyrir í gamanleikjum á 19. öld þar sem hvítir leikarar máluðu sig svarta í framan. Segir Reuters að ímynd Aunt Jemima kunni að fara fyrir brjóstið á fólki sem tengir nafnið og vörumerkið við staðalmynd af vinalegri svartri þjónustukonu eða barnfóstru hjá hvítri fjölskyldu.

Þá er matvælaveldið Mars með það til skoðunar að breyta Uncle Ben‘s-vörumerkinu. Fyrirtækið segist vera að athuga ýmsar leiðir til að þróa vörumerkið en rætur þess liggja allt aftur til ársins 1943. Í vörulínu Uncle Ben‘s má finna hrísgrjón og hrísgrjónavörur af ýmsu tagi auk baunarétta.

Umbúðirnar prýðir brosandi aldraður svartur maður en nafnið ku vísa til svarts bandarísks bónda sem þótti rækta einstaklega góð hrísgrjón. Sumum kann að þykja vörumerkið móðgandi því það var siður sumra hvítra íbúa suðurríkja Bandaríkjanna að kalla svarta karlmenn „uncle“ (ísl. frændi) í stað þess að ávarpa þá sem „herra“ eins og aðra menn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK