1,9 milljarðar evra sem fundust hvergi

Markus Braun forstjóri Wirecard þegar allt lék í lyndi. Greiðslumiðlunarfyrirtækið …
Markus Braun forstjóri Wirecard þegar allt lék í lyndi. Greiðslumiðlunarfyrirtækið hefur gengist við því að hafa logið til um 1,9 milljarða evra innistæðu í filippseyskum banka. AFP

„Þvílíkt tækifæri sem þetta hefði getað verið: Loksins Þjóðverjar sem láta til sín taka á alþjóðavettvangi án þess að vera úr bílabransanum eða vélsmíðum. Þjóðverjar, sem eru fulltrúar lands og þjóðar í framtíðaratvinnugrein á heimssviðinu, í sjálfum rjóma hins stafræna kapítalisma. Hvað hefði Wirecard eiginlega getað þýtt fyrir Þýskaland?

Nú er nafnið alla vega ekki lengur vonarstjarna á þýsku efnahagssvæði. Það er öllu heldur þjóðarskömm. Atburðarásin í kringum Wirecard er stórslys fyrir orðspor þýska fjármálageirans og aumkunarverða kauphallarmenningu landsins.“

Það er ljóst á þessu upphafi leiðara í Spiegel laugardagsins að Þjóðverjum er mikið niðri fyrir eftir nýtt hneykslismál í viðskiptalífinu. Hvað útheimtir aðrar eins upphrópanir?

Tildrögin eru þau að á fimmtudaginn átti stafræni greiðslumiðlunarrisinn Wirecard að skila ársreikningi fyrir 2019. Fjárfestar og blaðamenn biðu en hann lét ekki á sér kræla. Að lokum kom á daginn að endurskoðandi fyrirtækisins hikaði við að votta reikninginn og því var ekki hægt að senda hann út. Þetta gerði endurskoðandinn vegna rökstudds gruns um að 1,9 milljarða evra, sem áttu að vera í eigu fyrirtækisins í filippseyskum banka, væri í raun hvergi að finna.

Þessir 1,9 milljarðar væru í raun ekki í eigu fyrirtækisins eins og ætlast var til og þar með væru eignir þess um fjórðungi minni en það gaf opinberlega upp. Þegar uppskátt varð um þetta meinta bókhaldssvindl hrundu verðbréfin í fyrirtækinu, sem hafði til þessa verið rísandi stjarna á verðbréfamarkaðnum.

Sögulegt hrun í þýskri viðskiptasögu

Á 17. júní var einn hlutur í félaginu metinn á 104,5 Bandaríkjadali. Þegar markaðir lokuðu daginn eftir var hver hlutur á 39,9 dali og hafði fallið um 61,8%, sem er næstmesta dýfa sem félag í kauphöllinni í Frankfurt hefur tekið á einum degi í sögu DAX-vísitölunnar. Þessa stundina stendur verðið í rúmum 15 dölum og á innan við viku er markaðsvirði fyrirtækisins því hrunið um um 85%. Þar með hafa ellefu milljarðir evra svo að segja gufað upp á þessu nokkurra daga tímabili, sem skilur eftir markaðsvirði upp á um tvo milljarða evra, einmitt sömu upphæð og logið var til um á erlendum reikningum.

Fyrst um sinn sagði fyrirtækið að öll ummæli um að innistæður fyrirtækisins væru byggðar á lygum væru árás á fyrirtækið. Síðan hefur forstjórinn, hinn umdeildi Markus Braun, þurft að segja af sér og síðast viðurkenndu talsmenn félagsins að yfirgnæfandi líkur væru jú á því, að inneignirnar væru ekki alvöruinneignir.

Jafnframt gengust þeir við því að ekki væri hægt að útiloka að sú staðreynd hafi áhrif á ársreikninga fyrri ára, semsé kasti ákveðinni rýrð á þá. Eftir að endurskoðendur neituðu að skrifa undir ársreikninginn er ekki aðeins traust verðbréfaeigenda hrunið, heldur er líklegt að bankar veigri sér mjög við að veita þeim lánsfé, segir Spiegel. Þegar það bregst er líklega komið að því að leggja árar í bát og innsigla þar með hrun fyrirtækisins, sem er þegar orðið sögulegt í þýskri viðskiptasögu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK