„Verulegur skortur var á formfestu við ákvarðanatöku“

Virði Gamma: Novus var lækkað um tæplega 5,2 milljarða vegna …
Virði Gamma: Novus var lækkað um tæplega 5,2 milljarða vegna málsins. Töpuðu lífeyrissjóðir, tryggingafélög og fleiri umtalsverðum upphæðum. mbl/Arnþór Birkisson

Niðurstaða endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton á starfsemi Gamma: Novus og Upphafi fasteignafélagi, sem er að fullu í eigu sjóðsins, á árunum 2013-2019, er að um starfsemi Upphafs hafi verulega skort á formfestu við ákvarðanatöku og þá hafi sami einstaklingur oft setið við stjórnvölinn og stýrt framkvæmd félagsins án virkrar aðkomu eða eftirlits frá stjórn eða öðrum aðilum. Þá hefur Gamma tilkynnt um fleiri tilvik þar sem grunur er um óeðlilegar greiðslur til fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gamma.

Niðurstaða skýrslu Grant Thornton var kynnt eigendum hlutdeildarskírteina í Gamma: Novus í morgun, en þar á meðal eru meðal annars tryggingafélög og lífeyrissjóðir.

Eft­ir að Kvika banki yf­ir­tók Gamma árið 2019 kom í ljós að eign­ir fast­eigna­fé­lags­ins voru of­metn­ar og var virði þess lækkað úr 5,2 millj­örðum í 40 millj­ón­ir. Töpuðu trygg­inga­fé­lög, líf­eyr­is­sjóðir og fleiri fjár­fest­ar stór­um upp­hæðum eft­ir að hafa fjár­fest í sjóðinum.

Upp­haf var að fullu í eigu fjár­fest­inga­sjóðsins Gamma: Novus og var jafn­framt eina eign sjóðsins. Í fréttaskýringaþættinum Kveik í fyrra kom fram að fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fé­lags­ins, Pét­ur Hann­es­son, hafi fengið greitt 58 millj­ón­ir frá verk­taka­fyr­ir­tæk­inu Vélsmiðju Hjalta Ein­ars­son­ar, VHE, en fyr­ir­tækið hafði jafn­framt fengið risa­stór verk­taka­verk­efni frá Upp­hafi án útboðs.

Pétur var síðar kærður til lögreglu af stjórnendum Gamma vegna málsins.

Í tilkynningu Gamma kemur fram að „um starfsemi Upphafs fasteignafélags eru að verulegur skortur var á formfestu við ákvarðanatöku og utanumhald með verkefnum innan félagsins. Þetta birtist m.a. í því að oftar en ekki var það einn einstaklingur sem sat við stjórnvölinn og stýrði framkvæmd félagsins, án virkar aðkomu eða eftirlits frá stjórn og/eða öðrum aðilum. Þá lágu í sumum tilfellum ekki til grundvallar verkum skriflegir samningar og ákvarðanir og rökstuðningur fyrir þeim voru ekki skjalfestar.“

Þá er einnig tekið fram að virði eigna sjóðsins hafi verið metið með „mismunandi hætti á milli ára og óljóst hvernig forsendur að baki verðmats voru fundnar í sumum tilfellum. Eftirstöðvar verka í eigu sjóðsins voru verulega vanmetnar.“

Þá er tekið fram að í kjölfar skoðunar Grant Thornton hafi greiðslur fleiri en eins samstarfsaðila Upphafs til Péturs verið tilkynnt til héraðssaksóknara.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK