Gray Line komið í greiðsluskjól

Gray Line er komið í greiðsluskjól.
Gray Line er komið í greiðsluskjól.

Ferðaþjónustufyrirtækið Allrahanda GL ehf., rekstraraðili Gray Line á Íslandi, hefur óskað eftir greiðsluskjóli í samræmi við lög um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar, sem samþykkt voru á Alþingi þann 16. júní síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér rétt í þessu. 

Þar segir jafnframt að fyrirtækið hafi orðið fyrir verulegu höggi líkt og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. Síðustu þrjá mánuðina fyrir COVID-19 voru tekjur Gray Line samtals um 700 milljónir króna en síðustu þrjá mánuði voru tekjurnar 680 þúsund krónur, eða um 1 prómill mánaðanna þriggja þar á undan. Til að bæta gráu ofan á svart hafa orðið miklar tafir á greiðslu útistandandi viðskiptakrafna.

Að því er segir í tilkynningunni er staðan hjá fyrirtækinu mjög óljós. Þó bendi margt til að aðstæður geti breyst til batnaðar mjög hratt. Bókanir lengra fram í tímann hafa verið að taka við sér. Bókanir hjá Gray Line fyrir haustið eru um það bil helmingur af því sem var á sama tíma í fyrra.

Sérstakur aðstoðarmaður í greiðsluskjóli mun hafa umsjón með fjárhagslegri endurskipulagningu og samskiptum við kröfuhafa og lánardrottna. Kannað verður hvaða leiða verður leitað til að gera félaginu kleift að lifa áfram. Áform eru uppi um að fara í hlutafjáraukningu auk þess að gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK