Alltaf legið fyrir að viðræður yrðu flóknar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert sérstakt hefur komið upp á í viðræðum Icelandair og helstu hagsmunaaðila og lánardrottna félagsins. Þetta segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Félagið greindi í dag frá því að hlutafjárútboði félagsins, sem átti að hefjast í dag, hefði verið frestað fram í ágúst en ástæða þess er sú að ekki hefur tekist að ljúka samningum við alla þá aðila sem þarf að semja við áður en útboð hefst.

„Það lá alltaf fyrir að þetta yrði flókið enda margir hagsmunaaðilar sem þarf að semja við,“ segir Bogi í samtali við mbl.is. „Við erum að vinna að því að reyna að aðlaga greiðslur til fjármögnunaraðila að sjóðstreymi,“ segir Bogi en í því felst að samið verði við innlenda og erlenda banka um skilmálabreytingar á lánum og tilhögun endurgreiðslu.

Mikilvægt að búið sé að undirrita kjarasamning við allar stéttir

Bogi segist sem fyrr bjartsýnn á að samkomulag náist við alla aðila. Hann segir mikilvægt að nú sé búið að undirrita kjarasamning við allar flugstéttir en nú á fimmtudag voru kjarasamningar við flugfreyjur undirritaðir eftir strangar samningaviðræður. Aðspurður segist Bogi ánægður með þann samning.

„Jájá, ég er ánægður með hann. Við erum að styrkja samkeppnishæfni félagsins og auka sveigjanleika en að sama skapi verja ráðstöfunartekjur starfsfólks,“ segir Bogi en samningurinn kveður á um aukna vinnuskyldu flugfreyja gegn launahækkun sem ekki er í samræmi við hina auknu vinnu.

Þvertekur að Icelandair dragi að endurgreiða viðskiptavinum

Handbært fé Icelandair er um 150 milljónir bandaríkjadala (um 21 ma.kr.) samkvæmt tilkynningu frá félaginu. Aðspurður segir Bogi að það taki til alls fjár inni á bankareikningi félagsins, þ.m.t. þess fjár sem félaginu ber með réttu að endurgreiða flugfarþegum vegna aflýsts flugs. Samkvæmt reglum skal það gert innan sjö daga frá því endurgreiðslu er óskað, en borið hefur á því að viðskiptavinir kvarti yfir að hafa beðið mánuðum saman án þess að fá endurgreitt.

Bogi þvertekur fyrir að félagið dragi að endurgreiða viðskiptavinum vegna lausafjárþurrðar. Skýringarnar séu einfaldlega þær að vegna gríðarlegra breytinga í flugáætlun af völdum veirunnar taki endurgreiðsluferlið jafnlangan tíma og raun ber vitni. 

„En við höfum verið að vinna að því að sjálfvirknivæða þetta,“ segir Bogi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK