Telenor sektað um 17 milljarða

Brotin voru framin þegar 3G-tæknin var að ryðja sér til …
Brotin voru framin þegar 3G-tæknin var að ryðja sér til rúms. AFP

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sektað norska fjarskiptafélagið Telenor um 112 milljónir evra (um 17 ma. króna) vegna brota á samkeppnisreglum EES-samningsins.

Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að Telenor hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með ólöglegum verðþrýstingi sem fólst í því að keppiautar félagsins sem keyptu þjónustu á heildsölustigi greiddu hærra verð en viðskiptavinir fyrirtækisins fyrir aðgang að farsímaneti.

Á þeim tíma er fólk fór í auknum mæli að nýta sér farsímanet, á borð við 3G, á ferðalagi höfðu aðgerðir Telenor þau áhrif að keppinautar hefðu tapað á því að bjóða viðskiptavinum slíka þjónustu fyrir stór raftæki, svo sem tölvur og spjaldtölvur, gegnum netkerfi Telenor.

„Sem ráðandi aðili á norskum fjarskiptamarkaði hefur Telenor sérstakar skyldu til að tryggja að verðlagning þess hamli ekki samkeppni,“ er haft eftir Frank J. Büchel, sem fer með samkeppnismál í samstarfshópi ESA, í tilkynningu frá stofnuninni.

Rannsókn ESA hófst með húsleit í starfsstöðvum Telenor árið 2012 en eftir að hafa aflað ýmissa gagna birti ESA fyrirtækinu andmælaskjal árið 2016 og síðar viðbótarandmælaskjal árið 2019. Formleg ákvörðun var birt málsaðilum í gær, en Telenor hefur tvo mánuði til að áfrýja ákvörðuninni til EFTA-dómstólsins.

Í tilkynningu frá EFTA segir einnig að einstaklingar eða fyrirtæki sem hafi orðið fyrir neikvæðum áhrifum af ólögmætum viðskiptaháttum Telenor geti höfðað einkamál fyrir dómstólum í heimaríki sínu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK