Þörf á sérlögum um fjárhagsupplýsingar

Lánshæfi kemur æ oftar við sögu í alls kyns viðskipum …
Lánshæfi kemur æ oftar við sögu í alls kyns viðskipum og þurfa lögin að halda í við þróunina. mbl.is/Hari

Það myndi á margan hátt bæta starfsumhverfi fjárhagsupplýsingastofa ef lagaramminn utan um slíka þjónustu væri jafn skýr á Íslandi og hann er annars staðar á Norðurlöndum.

Rebekka Bjarnadóttir lauk nýlega meistaraprófi í lögfræði og fjallaði lokaritgerð hennar um vinnslu persónuupplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, og hvort núverandi regluverk tryggi með nægilegum hætti réttarvernd einstaklinga og lögaðila. Hún segir það óheppilegt að á Íslandi skuli vanta sérstök lög um fjárhagsupplýsingastofur og að Persónuvernd hafi verið falið að stýra þessum málaflokki, en annars staðar á Norðurlöndum er annar háttur hafður á.

Rebekka Bjarnadóttir lauk nýlega meistaraprófi í lögfræði og fjallaði lokaritgerð …
Rebekka Bjarnadóttir lauk nýlega meistaraprófi í lögfræði og fjallaði lokaritgerð hennar um vinnslu persónuupplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Ljósmynd/Aðsend

Í síðustu viku fjölluðu fjölmiðlar um starfsemi fjárhagsupplýsingastofunnar Creditinfo sem sætt hefur harðri gagnrýni af hálfu Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands, m.a. vegna þess hvernig fyrirtækið vinnur með og geymir viðkvæmar persónuupplýsingar um fjárhag fólks og hvernig brugðist hefur verið við tilvikum þar sem viðskiptavinir hafa orðið uppvísir að því að brjóta á lögvörðum rétti skuldara.

Rebekka segir lagarammann hér á landi flækja stöðu Creditinfo. „Ég er viss um að Creditinfo leggur sig fram við að fylgja lögum og reglum eftir bestu getu og reynir að eiga í góðu samstarfi við Persónuvernd. En þau lög sem unnið er eftir eru komin til ára sinna og vöntun á skýrara og betra regluverki,“ útskýrir hún en núgildandi regluverk er að grunninum til frá árinu 2001. Rebekka bætir við að ný og betri lög um málaflokkinn myndu væntanlega líka stuðla að aukinni samkeppni en í dag er Creditinfo eina fjárhagsupplýsingastofan sem sinnir íslenskum markaði. „Skortur á fyrirsjáanleika sést m.a. í því að Persónuvernd hefur ítrekað endurnýjað starfsleyfi Creditinfo og hlýtur það að valda verulegri óvissu í rekstri félagsins hvað reglurnar eru óskýrar, og einnig að vera fráhrindandi fyrir nýja aðila sem gætu viljað bjóða upp á söfnun og miðlun fjárhagsupplýsinga.“

Miklir hagsmunir í húfi

Merkilegt nokk þá sýnir samanburður við hin norrænu löndin að þar eru fyrirtækjum og stofnunum veittar víðtækari heimildir en hér á landi til að safna og miðla upplýsingum um fjárhag einstaklinga. Auknum heimildum fylgja hins vegar iðulega ríkari skyldur, s.s. til að upplýsa einstaklinga með virkum hætti um það þegar fjárhagsupplýsingar þeirra eru skoðaðar og eins að gefa einstaklingum kost á að gera athugasemdir og óska leiðréttinga ef við á.

Rebekka bendir á að fjárhagsupplýsingastofur gegni mikilvægu hlutverki fyrir fjármálafyrirtæki og fjármálamarkaði, fyrir hagvöxt og jafnvægi í efnahagslífinu, og hjálpi t.d. fyrirtækjum að taka betri ákvarðanir um ýmiss konar fyrirgreiðslur og lánveitingar. „En að sama skapi þurfa lögin að vera mjög skýr og vönduð, enda ákveðin áhætta sem fylgir því að safna og miðla fjárhagslegum upplýsingum. Hætturnar snúa ekki bara að því að rétt sé farið með þessar upplýsingar, heldur líka að þær séu réttar og áreiðanlegar því ef þær upplýsingar sem aflað er gefa ekki rétta mynd af fjárhag einstaklinga geta þær orðið til þess að útiloka þá frá vissri þjónustu og jafnvel leitt til orðsporsmissis,“ útskýrir hún. „Á Íslandi eru engin sérlög til staðar sem afmarka heimildir á þessu sviði heldur hefur stjórnvaldinu Persónuvernd verið veitt nær ótakmarkað vald til að setja reglur fyrir sviðið eins og það leggur sig.“

Lánshæfismat hluti af alls kyns viðskiptum

Þörfin fyrir skýrari og vandaðri lagaramma verður bara meira aðkallandi eftir því sem fram í sækir, í takt við örar tækniframfarir á fjármálasviðinu. Nefnir Rebekka sem dæmi að svo virðist sem núgildandi regluverk hafi ekki getað brugðist nógu vel við nýjum lánamöguleikum eins og smálánum. „Í tilvikum eins og með smálán, þar sem aðgengi að lánsfé er auðveldara, því auðveldara verður það fyrir neytendur að taka mörg skammtímalán á skömmum tíma án þess að lánveitendum sé kunnugt um það. Því hefur verið haldið fram að slík lán valdi hvað mestum vanda hjá neytendum og séu vísbending um versnandi fjárhagsstöðu einstaklinga undir vissum kringumstæðum.“

Telur Rebekka að það myndi stuðla að öruggara réttarfari, með því að tryggja lögmæta og sanngjarna vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, ef sett yrðu sérlög um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust hjá fjárhagsupplýsingastofnunum. Að sama skapi ætti sérstök löggjöf á þessu sviði að vernda betur friðhelgi einkalífs almennings.

„Þróunin mun verða á þá leið að lánshæfismat verður oftar ómissandi hluti af greiðsluferlinu fyrir alls konar vörur og þjónustu,“ segir hún og nefnir sem dæmi að í Noregi sæki símafyrirtæki upplýsingar um lánshæfismat fólks áður en það getur stofnað til viðskipta.

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK