Fjárfestu í tveimur sprotum fyrir 140 milljónir

Bala Kamallakharan, stofnandi IVS, stofnaði einnig Startup Iceland og hefur …
Bala Kamallakharan, stofnandi IVS, stofnaði einnig Startup Iceland og hefur fjárfest hérlendis í meira en áratug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjárfestingafyrirtækið Iceland Venture Studio (IVS), sem miðar að því að efla íslensk nýsköpun í tæknigeiranum, fjárfesti nýverið í tveimur íslenskum sprotafyrirtækjum. Hvor fjárfesting hljóðar upp á um sjötíu milljónir króna. 

Fjárfestingafyrirtækið tilkynnti nýlega að það hafi safnað tveimur milljónum bandaríkjadala til viðbótar við milljónina sem fyrirtækið safnaði árið 2019, nemur fé sem fyrirtækið hefur aflað því rúmum 423 milljónum króna.

Þrátt fyrir að IVS einbeiti sér að því að fjárfesta í nýsköpun hérlendis hefur fyrirtækið einnig fjárfest í fyrirtækjum í Sílikondal í Bandaríkjunum, Ísrael og Indlandi. 

Flow og Retina Risk styrkþegar

Íslensku sprotafyrirtækin Flow og Retina Risk hlutu í kjölfar fjármögnunarinnar umrædda 70 milljóna króna styrki. IVS hefur áður fjárfest í báðum fyrirtækjum. Flow fram­leiðir hug­leiðslu­hug­búnað fyr­ir sýnd­ar­veru­leika og leiðir not­and­ann í gegn­um hug­leiðsluæf­ing­ar.

Retina Risk hef­ur sett á markað samnefnt for­rit sem er áhætt­u­r­eikn­ir sem ger­ir fólki með syk­ur­sýki kleift að fylgj­ast með ein­stak­lings­bund­inni áhættu á að þróa með sér augn­sjúk­dóma sem leitt geta til sjónskerðing­ar og jafn­vel blindu. 

Bala Kamallakharan, stofnandi IVS, stofnaði einnig Startup Iceland og hefur fjárfest hérlendis í meira en áratug. Í frétt Tech er haft eftir honum að Ísland sé fullkominn vettvangur til að prófa og meta áhættu sprotafyrirtækja hvað varðar vöruþróun, teymisþróun og fleira. 

Vilja forritið til þróunarlanda

Framkvæmdastjórar Flow og Retina Risk lýsa yfir ánægju sinni í frétt Tech. 

„Þessi nýja fjárfesting mun leyfa okkur að færast nær markmiði okkar um að koma hugleiðslu ekki bara til fyrirtækja heldur einnig einstaklinga sem vilja taka þátt í hugleiðslu með leiðsögn,“ er haft eftir Kristínu Hrefnu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Flow. 

„Þessi nýi sjóður mun vera okkur sérstaklega dýrmætur þegar við leitumst við að gera forritið okkar aðgengilegt í þróunarlöndum þar sem aðgangur að heilsugæslu er takmarkaður,“ er haft eftir Sigurbjörgu Ástu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Retina Risk.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK