Stórlaxar á bak við breytingar hjá Borgun

Salt pay keypti Borgun fyrir um 4,3 milljarða. Eigendurnir ætla …
Salt pay keypti Borgun fyrir um 4,3 milljarða. Eigendurnir ætla sér stóra hluti á næstunni og meðal annars ráða 60 nýja starfsmenn næsta hálfa árið. mbl.is/Árni Sæberg

Á síðustu misserum hafa umtalsverðar breytingar orðið hjá Borgun, en í mars var greint frá því að félagið Salt pay hefði keypt samtals 96% hlut í félaginu. Gengið var endanlega frá kaupunum í síðustu viku. Þá var forstjóranum skipt út og settust tveir forstjórar í forstjórastólinn í staðinn, þeir  Eduardo Pontes og Marcos Nunes. Báðir eru þeir erlendir ríkisborgarar og að mestu óþekktir í viðskiptalífinu hér á landi. Helmingi framkvæmdastjórnarinnar var svo sagt upp auk nokkurra annarra starfsmanna, samtals 10 starfsmönnum, en á móti ætlar Borgun að ráða 60 nýja starfsmenn á næstu sex mánuðum.

Þetta eru nokkuð viðamiklar breytingar hjá fyrirtæki sem telur um 130 starfsmenn í dag eftir uppsagnirnar. Stjórnendur Salt pay hafa boðað mikla sókn, meðal annars á erlenda markaði, en hver er framtíðarsýn þeirra og hverjir eru þessir fjárfestar? Mbl.is ræddi við Ali Mazanderani, sem er stjórnarformaður Salt pay, um áskoranir í fjártæknigeiranum og hvað það er sem Salt pay telji að fyrirtækið geti gert öðruvísi þegar komi að færsluhirðingu.

Byrjum samt á að skoða aðeins bakgrunn þremenninganna, en það verður ekki sagt að þeir séu reynslulitlir þegar kemur að fjártækni og færsluhirðingu.

Stofnaði fyrirtæki sem er metið á 1.550 milljarða

Eduardo hefur stofnað nokkuð fjártæknifyrirtæki í S-Ameríku, en stærsta verkefnið sem hann kom að var StoneCo. Var hann meðstofnandi og forstjóri félagsins meðan félagið var byggt upp, eða til ársins 2018 þegar hann flutti með fjölskyldunni til Evrópu skömmu fyrir skráningu á Nasdaq markaðinn í Bandaríkjunum. Er félagið nú verðmetið á 11,2 milljarða dala, eða sem nemur um 1.550 milljarða íslenskra króna. Til að setja það í samhengi er það um þrisvar sinnum verðmætara en Marel, stærsta skráða félag á Íslandi og um fjórtánfalt verðmætara en næst stærsta félagið, Arion banki.

StoneCo nýtti sér meðal annars farsímalausnir við greiðslumiðlun í Brasilíu, en slíkt reyndist gæfusamt í landi þar sem greiðslukort eru ekki jafn útbreidd og í Evrópu eða N-Ameríku. Vakti meðal annars mikla athygli þegar Warren Buffett keypti 8% hlut í félaginu eftir skráningu.

Ali Mazanderani, stjórnarformaður Salt pay.
Ali Mazanderani, stjórnarformaður Salt pay.

Kynntist Íslandi í gegnum Creditinfo

Ali er ekki alveg ókunnugur Íslandi, en hann settist í stjórn Creditinfo fyrir nokkrum árum fyrir hönd breska fjárfestingafélagsins Actis sem hafði keypt hlut í félaginu. Sjálfur hefur hann jafnframt fjárfest í færsluhirðingar- og greiðslufyrirtækjum víða um heim og þá situr hann í stjórn fyrrnefnds StoneCo og Network international. Síðarnefnda félagið er leiðandi í greiðslumiðlun í Miðausturlöndunum og þó það sé ekki jafn stórt og StoneCo er markaðsvirði þess um 400 milljarðar íslenskra króna og er skráð á hlutabréfamarkaðinn í London.

Ali kynntist Eduardo í gegnum StoneCo og þegar Eduardo flutti til Evrópu ákváðu þeir saman að stofna Salt pay með það að markmiði að byggja á hugmyndafræði StoneCo við uppbyggingu á færsluhirðingar og greiðslumiðlunarfyrirtæki hér á landi. Það er þó ekki eini markaðurinn sem þeir horfa til heldur segir Ali að Ísland sé hugsað sem stökkpallur út á Evrópumarkaðinn þar sem félagið vilji verða meðal leiðandi fyrirtækja. Eru þeir Eduardo og Ali í forsvari fyrir fjárfestahópinn á bakvið Salt pay. Í tengslum við kaupin á Borgun hefur svo Ali stigið úr stjórn Creditinfo.

Marcos kom svo til liðs við Salt pay frá færsluhirðingafyrirtækinu Babora í Svíþjóð, en hann sá þar um alþjóðlega útrás þess. Er hann nú einn af yfirstjórnendum félagsins og varð sem slíkur forstjóri Borgunar ásamt Eduardo. Verða þeir samkvæmt heimildum mbl.is báðir með aðsetur hér á landi sem og erlendis. Þremenningarnir eru allir ungir að aldri, eða um og undir fertugt.

Horfa sérstaklega til minni fyrirtækja

En að áformum Salt pay með Borgun. Hvernig meta þeir stöðuna? Ali segir að þegar horft sé til rafrænna greiðsla sé hlutfall þeirra í Evrópa og N-Ameríka nokkuð hátt og að hér á landi megi líklegast finna lægsta hlutfall heims þegar komi að notkun seðla við kaup á vörum og þjónustu. Hann segir Evrópu þó enn eiga eftir að fara langan veg í þróun greiðsluþjónustu.

Spurður hvort Salt pay horfi til þess að færa notkun frekar yfir í síma en af kortum segir Ali að í raun fari það bara eftir áhuga notenda. Segir hann kerfið þar á bak við vera eitt og hið sama og það sem Salt pay horfi fyrst og fremst til sé hvernig hægt sé að byggja upp góða þjónustu við söluaðila og tekur hann sérstaklega fram að fyrirtækið horfi til minni viðskiptavina. „Við viljum vera með þjónustu sem gagnast eigendum og frumkvöðlum sem eru að byggja upp eigin rekstur og þurfa tækni til þess að bæta reksturinn.“

Segir Ali að meðal annars horfi þeir til þess að tengja greiðslulausnir við bókhaldskerfi fyrirtækjanna á einfaldan hátt sem og við vörukerfi og lagermál. Þá segir hann að fyrirtækið horfi einnig til þess að einfalda minni fyrirtækjum að geta nálgast viðskiptavini í stað þess að auglýsa í gegnum hefðbundna auglýsingamiðla. Segir hann þetta einn anga af þeirri miklu þróun sem er að verða á fjártæknimarkaðinum, sérstaklega eftir að opnað var fyrir opnara flæði upplýsinga úr bankakerfum.

„Keppinauturinn er óskilvirkni“

En hver er keppinauturinn? Er Salt pay að horfa til innlendra aðila, eða eru það evrópsk færsluhirðingarfyrirtæki og greiðslugáttir, jafnvel fyrirtæki eins og WeChat, Apple eða Facebook? Ali segist ekki vilja nefna nein sérstök nöfn í þessu samhengi. „Keppinauturinn er óskilvirkni,“ segir hann.

Þriggja mánaða þjálfunarbúðir og ný menning

Það vakti nokkra athygli þegar félagið greindi frá því að það ætlaði að ráða 60 manns á næsta hálfa árinu. Á vefsíðu félagsins kom meðal annars fram að starfsfólkið færi í þriggja mánaða „bootcamp“ þjálfun þar sem áhersla væri lögð á fjártækni, frumkvöðlamennsku o.fl. Þá verður sérstaklega horft til þess að ráða ungt fólk beint úr háskóla.

Ekki eru mörg dæmi um sambærilega nálgun hjá fyrirtæki hér á landi og spurður út í hugsunina á bak við þetta segir Ali að svipuð aðferðafræði hafi virkað vel hjá þeim fyrirtækjum sem þeir Eduardo hafi komið að því að byggja upp. Þetta hafi virkað vel við að byggja upp ákveðna menningu innan fyrirtækja sem þeir telja æskilega til árangurs og skili sér í verðmætum fyrir fyrirtækið að lokum.

Ungt fólk með brennandi áhuga sem eru framtíðarleiðtogar

Segir hann að í þeim verkefnum sem þeir hafi komið að hafi þeir ráðið ungt fólk sem vill gera breytingar. „Við höfum ástríðu fyrir að veita ungu fólki sem er að koma úr skóla tækifæri og þjálfun [á vinnumarkaði]. Það hefur orku og brennandi áhuga og þetta eru framtíðarleiðtogar,“ segir Ali.

Spurður út í þá fjárfestingu sem þeir félagar séu að setja í Borgun segir Ali að þeir vilji að svo stöddu ekki gefa það upp. Þá sé ekki rétt að tala um að það sé ein tala. „Þetta verður áframhaldandi fjárfesting,“ segir hann. Áður hefur komið fram í Fréttablaðinu að kaup Salt pay á Borgun nemi um 4,3 milljörðum króna.

Dáist að árangri fótboltalandsliðanna

En af hverju velja þeir Ísland sem stökkpall? Ali hlær að þessu og segir að einfalda svarið sé að Ísland sé yndislegur staður, með yndislegu og hlýlegu fólki sem hafi látið þá líða eins og þeir væru velkomnir. En til viðbótar hefðu þeir dáðst að öðru sem þeir hefðu séð hér á landi og það væri að hægt væri að ná árangri umfram það sem mætti búast við af fámennri þjóð. Nefnir hann sérstaklega árangur í fótbolta, en að þetta megi sjá mun víðar í samfélaginu.

Þá segir Ali að landsmenn séu almennt mjög tæknisinnaðir og taki fljótt upp tækninýjungar, sem sé einmitt það sem þeir horfi mikið til.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK