Rio Tinto kærir Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins

Álverið Rio Tinto í Straumsvík.
Álverið Rio Tinto í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rio Tinto hefur kært Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins. Segir Rio Tinto að Landsvirkjun hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði. Fyrirtækið segir að láti Landsvirkjun „ekki af skaðlegri háttsemi sinni“ hafi það ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum og virkja áætlun um lokun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rio Tinto.

Skoði „samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar

Þar kemur fram að Rio Tinto óski eftir því að Samkeppniseftirlitið skoði „samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum, svo að álver ISAL og önnur íslensk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi.“

Hótar Alf Barrios, forstjóri Rio Tinto á heimsvísu, í tilkynningunni að ef ekki sé tekið á „misnotkun Landsvirkjunar“ sé framleiðsla fyrirtækisins hér á landi í hættu. „Það þarf að taka á misnotkun Landsvirkjunar á markaðsráðandi stöðu sinni á íslenskum orkumarkaði. Af öðrum kosti á Ísland á hættu að glata stórum útflutningsfyrirtækjum á borð við ISAL í Straumsvík. ISAL greiðir umtalsvert meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi sem grefur undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins. Við getum ekki haldið áfram að framleiða ál á Íslandi sé verðlagning orkunnar ekki gagnsæ, sanngjörn og alþjóðlega samkeppnishæf. Í millitíðinni munu teymi okkar hjá ISAL halda áfram að einbeita sér að því að draga úr kostnaði á öruggan hátt, bæta framleiðni og standa við skuldbindingar okkar gagnvart viðskiptavinum.“

Íhuga að segja upp samningi og virkja lokunaráætlun ef ekki næst saman

Segir jafnframt að Rio Tinto hafi verið í viðræðum við Landsvirkjun til að tryggja sjálfbæra framtíð álversins, en þrátt fyrir ítrekaða viðleitni hafi fyrirtækið „nú komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun sé ekki tilbúin til að bæta núverandi raforkusamning ISAL sem gerir fyrirtækið sjálfbært og samkeppnishæft og taka á skaðlegri hegðun og mismunun Landsvirkjunar gagnvart ISAL.“

Að lokum segir í tilkynningunni að í ljósi stöðunnar og eftir að hafa lokið fyrsta áfanga stefnumótandi endurskoðunar með kvörtuninni. „Láti Landsvirkjun ekki af skaðlegri háttsemi sinni, hefur ISAL ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og virkja áætlun um lokun álversins.“

Um 500 manns starfa hjá álverinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK