„Leyfi mér að nota orðið viðbjóðsleg spilling“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, óttast ekki Samtök atvinnulífsins eða mögulegar aðgerðir fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands vegna tilmæla stjórnar VR um að stjórnarmenn stéttarfélagsins í Lífeyrissjóði verzlunarmanna ættu að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í fyrirhuguðu hlutfjárútboði Icelandair.

Samtök atvinnulífsins hafa sent Seðlabankanum bréf þar sem fundið er að afskiptum stjórnar VR af Lífeyrissjóði verzlunarmanna og óska samtökin eftir því að Seðlabankinn grípi til „tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga“.

Ragnar segir að VR muni taka til varna, líkt og ávallt, ef að stéttarfélaginu sé sótt en telur að hvorki fjármálaeftirlit Seðlabankans eða Samtök atvinnulífsins geti aðhafst mikið vegna yfirlýsingarinnar, sem stendur til að draga til baka.

Þá dregur Ragnar þá ályktun að með því að óska eftir aðkomu Seðlabankans séu Samtök atvinnulífsins að reyna að afvegaleiða umræðuna um spillingarmál sem hann hefur verið að benda á undanfarna daga.

Hlustaði á gagnrýnisraddir félagsmanna

Yfirlýsing stjórnar VR um að sniðganga fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair var gefin út eftir að Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum og ætlaði að gera flugmönnum að sinna starfi öryggisliða í stað þeirra. Hún var þó ekki gefin út eingöngu vegna þeirrar aðgerðar Icelandair heldur var henni lýst sem korninu sem fyllti mælinn.

Fljótlega í kjölfarið settust samninganefndir Icelandair og Flugfreyjufélagsins aftur að samningaborðinu og náðu að gera samning. Í kjölfarið greindi Ragnar frá því að stjórn VR ætlaði að draga yfirlýsinguna til baka, meðal annars vegna óánægju félagsmanna VR með framgöngu stéttarfélagsins.

Í millitíðinni sendu Samtök atvinnulífsins bréf sitt til Seðlabankans en Ragnar segir það ekki hafa haft áhrif á þá ákvörðun að draga yfirlýsinguna til baka heldur frekar haft öfug áhrif.

„Þetta voru nokkrir félagsmenn sem höfðu beint samband við skrifstofu og beint samband við mig þar sem þeir lýstu yfir óánægju með afstöðu félagsins og afstöðu Alþýðusambands Íslands. Í ljósi þess og að grundvallarsamningsrétti stéttarfélaga almennt var bjargað fyrir horn með samningnum við Flugfreyjufélagið töldum við réttast að draga yfirlýsinguna til baka,“ útskýrir Ragnar í samtali við mbl.is.

„En líka til að gefa stjórnarmönnum okkar andrými til þess að taka upplýsta ákvörðun eins og þeir eiga að gera. Stjórnin ræddi þetta og það lágu fyrir mörg sjónarmið og það eru ekki allir sammála um að draga þessa yfirlýsingu til baka en það verður gert, og við erum í sjálfu sér búin að gera það,“ bætir hann við.

Bréf Samtaka atvinnulífsins hafði öfug áhrif

Spurður hvort bréf Samtaka atvinnulífsins til Seðlabankans hafi haft áhrif á umræðuna játar hann því: „Já, það gerði það. Við vorum byrjuð að ræða þetta áður en yfirlýsing SA til bankans var gerð opinber og það varð til þess að við vorum að spá í að hætta við að draga yfirlýsinguna til baka. Það voru einu áhrifin,“ segir hann.

Hvers vegna var það?

„Vegna þess að við töldum að framganga SA í þessu máli hefði verið tilefni til að senda út yfirlýsinguna í upphafi. Og með þessari framgöngu bæði gegn mér og stjórninni væri verið að fara freklega gegn tjáningarfrelsi okkar og frelsi okkar til að hafa skoðanir á málunum. Þar af leiðandi íhuguðum við alvarlega að hætta við að draga yfirlýsinguna til baka. Þannig að þetta hafði öfug áhrif frekari en hitt.“

Þá nefnir Ragnar þá sérstöðu sem VR sem stéttarfélag hefur varðandi breidd hvað varðar til dæmis atvinnustig, menntastig og tekjur félagsmanna. Það þurfi eftir fremsta megni að reyna að taka tillit til allra sjónarmiða þó að það sé stundum erfitt. Í þessu tilviki hafi verið tekið tillit til þeirra sem voru óánægðir með framgöngu VR gagnvart Icelandair.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.isHari

Þarf að passa að enginn félagsmaður sé skilinn eftir

„Þegar þú ert með svona mikla breidd í félagi þá er erfitt að finna samnefnara til að fara eftir þegar þú ert til dæmis að gera kjarasamninga og við þurfum alltaf að finna eitthvað fyrir alla hópa og passa að enginn sé skilinn eftir,“ segir hann og bætir því við að það sé eðlilegt að algengara sé að togstreita myndist meðal félagsmanna VR en annarra stéttarfélaga vegna ólíkra hagsmuna sem taka þurfi tillit til.

„Við reynum að hlusta á alla og þó það rigni yfir okkur stuðningskveðjum frá alls konar fólki þá heyrast líka gagnrýnisraddir sem eru áberandi. Þetta eru ekki margir aðilar en ég skynja og skil afstöðu þessara félagsmanna,“ segir hann jafnframt en bætir því við að fólk verði að hafa það í huga hversu mikið var undir.

„Það sem var undir var samningsrétturinn – ef samningsrétturinn fer eru atvinnurekendur komnir í þá stöðu að geta jafnvel stofnað sín eigin stéttarfélög eða samið við þau stéttarfélög sem eru þeim hliðholl og fylgja stefnum og straumum atvinnulífsins hverju sinni.“

„Miklu miklu stærra mál“ en deila Icelandair og FFÍ

„Þetta var í sjálfu sér miklu miklu stærra mál en nokkurn tímann deila Icelandair við Flugfreyjufélagið. Það eru kannski ekki allir sem gera sér almennilega grein fyrir því hversu mikið var undir og af hverju verkalýðshreyfingin steig sameinuð fram í þessu máli. Þetta er flókið mál og það eru margar hliðar á þessu en við tókum þessa ákvörðun."

Skoðun stjórnar VR var sú að það væru litlar sem engar líkur á því að lífeyrissjóðir kæmu með fjármagn inn í Icelandair með núverandi stjórn og lykilstjórnendur við völd. Stjórnin hafi því frekar talið sig vera að auka líkur á því að félaginu yrði bjargað án aðkomu ríkisins með því að gera kröfu um að stjórnendum yrði skipt út og telur Ragnar að fyrir því hafi verið færð mjög góð rök.

„En síðan er málið flóknara og við reynum eftir fremsta megni að taka tillit til allra sjónarmiða þó að það sé stundum erfitt. Ég og stjórn félagsins erum ekkert hafin yfir gagnrýni og ólíkt mörgum öðrum erum við alveg tilbúin að bakka með ákvarðanir í stað þess að halda þeim til streitu fram í rauðan dauðann út af einhverju stolti,“ segir hann um þá ákvörðun stjórnar VR að draga yfirlýsinguna til baka.

Hann tekur fram að þrátt fyrir yfirlýsinguna hafi hann og stjórn VR þá skoðun að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum séu eingöngu bundnir af sannfæringu sinni og taki sjálfstæðar ákvarðanir. „Það er og verður alltaf okkar skoðun en við áskiljum okkur rétt til að hafa skoðanir.“

Reyna að afvegaleiða umræðu um spillingarmál

Ragnar telur að með framgöngu sinni gagnvart sér og VR sé verið að koma athyglinni frá þeim spillingarmálum sem hann hefur bent á síðustu daga. Þannig komist menn hjá því að svara efnislega fyrir þau mál og afvegaleiða umræðuna um augljósa misbresti í atvinnulífinu.   

 „Ég leyfi mér að nota orðið viðbjóðsleg spilling,“ segir hann um þau mál sem hann hefur vakið athygli á. „Við höfum kallað eftir rannsókn á þessu máli og við teljum að þar sem þeir aðilar sem tengjast málinu neita að svara fyrir það efnislega þá sé áróðursherferð Samtaka atvinnulífsins til að koma í veg fyrir að þurfa svara fyrir mál eins og Lindarvatnsmálið,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK