Stór sameining í ferðaþjónustunni

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslensk ferðaþjónusta er í lykilstöðu til að koma vel út úr kórónuveirufaraldrinum. Þetta segir Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. Aðgerðir Íslendinga hafi vakið heimsathygli og fyrirsjáanlegt sé að ferðamenn veigri sér við að ferðast til stórborga næstu misserin en kjósi frekar afskekktari svæði á borð við Ísland.

Náðst hefur samkomulag milli ferðaþjónustufyrirtækjanna Kynnisferða og Eldeyjar um sameiningu félaganna, en greint var frá því í Viðskiptablaðinu í morgun. Hluthafar Eldeyjar munu eignast 35% hlut í nýju félagi en Kynnisferðir 65%. Þá verður hlutafé aukið um 800 milljónir króna, 500 milljónir koma frá Eldey en 300 milljónir frá Kynnisferðum.

Viðræður hafa staðið milli fyrirtækjanna um nokkra hríð og hófust áður en kórónuveirufaraldurinn fór að gera vart við sig. Ekki hefur verið skrifað undir kaupsamninginn en það verður gert á næstu vikum og málið síðan sent Samkeppniseftirlitinu til staðfestingar. Björn segist eiga von á að Samkeppniseftirlitið afgreiði málið nokkuð hratt líkt og að nýtt fyrirtæki geti jafnvel farið að starfa með haustinu.

Sótt á ný mið

Í sameiningunni felast ýmis tækifæri fyrir fyrirtækin, segir Björn. „Við höfum þegar verið stór söluaðili í afþreyingu og séð um að keyra og selja ýmsar ferðir, til dæmis vélsleðaferðir og jöklaferðir,“ segir Björn. Fyrirtækið hafi þó ekki haldið úti eigin afþreyingarmöguleikum. Með sameiningu gefist fyrirtækinu kostur á að bjóða upp á þjónustu við ferðamenn, allt frá því þeir koma til landsins í Keflavík. „Þá erum við að horfa til þess að við verðum almennt ferðaþjónustufyrirtæki sem flytur ferðamenn en selur líka afþreyingu.“

Ljósmynd/Aðsend

Með sameiningu gefst einnig kostur á auknu markaðsstarfi á eigin vegum. „Stórt fyrirtæki með „markaðsbudget“ upp á hundruð milljóna getur frekar sótt beint á viðskiptavini,“ segir Björn. Þar er til mikils að vinna enda geta bókunargjöld vefsíðna numið á milli 15% og 20% af söluverði. 

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um vörumerki hins nýja félags, en líkt og Björn bendir á er starfsemin undir mörgum nöfnum í dag. Reykjavík Excursion, Kynnisferðir og Flybus eru vörumerki Kynnisferða, en Dive.is, Saga Travel, Íslenskar heilsulindir og Arcanum eru meðal vörumerkja Eldeyjar. Björn á von á að vörumerkjastrúktúrinn verði einfaldaður og fyrirtækin jafnvel rekin undir einu regnhlífarmerki. „En Flybus verður alltaf Flybus.“ 

Á von á frekari hagræðingu

Nú þegar kreppir að í ferðaþjónustu er viðbúið að einhver fyrirtæki fari undir, segir Björn að tækifæri séu til frekari hagræðingar innan greinarinnar. „Íslensk ferðaþjónusta býr við tiltölulega háan rekstrarkostnað. Launakostnaður er hár og vextir líka sem þýðir að ferðaþjónusta verður frekar há í verði. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að ná hagræðingu eins og við getum.“ 

Hann segir þó ekki markmiðið að gleypa minni fyrirtæki, heldur sé frekar hugsunin að minni fyrirtæki geti sameinast undir regnhlíf stærri fyrirtækja. „Við erum opnir fyrir því að ræða við fleiri ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Björn. Almennt sé horft til fyrirtækja sem tengist sölu- og afþreyingarstarfsemi þess. „En svo getur vel verið að inn í það passi einhver hótel á landsbyggðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK