Farþegum fækkaði um 99%

AFP

Írska flugfélagið Ryanair tapaði 185 milljónum evra á þremur mánuðum, apríl - júní, en tapið var samt minna en stjórnendur flugfélagsins höfðu sjálfir spáð. Um er að ræða fyrsta fjórðung rekstrarársins hjá Ryanair. Á sama tímabili 2019 nam hagnaður félagsins 243 milljónum evra. Stjórnendur Ryanair höfðu spáð 200 milljóna evra tapi í fjórðungnum vegna kórónuveirufaraldursins.

Farþegum fækkaði um 99% og voru aðeins hálf milljón talsins á þremur mánuðum. Á sama tímabili í fyrra voru þeir 42 milljónir talsins. 99% af flugflota Ryanair var kyrrsettur á tímabilinu í gær og hrundi sala á farmiðum. Alls voru seldir farmiðar fyrir 125 milljónir evra frá 1. apríl til loka júní í ár samanborið við 2.312 milljónir evra í fyrra. 

Síðasti ársfjórðungur er stærsta áskorun sem Ryanair hefur staðið frammi fyrir í 35 ára sögu flugfélagsins. Enda var flugfloti Ryanair nánast allur kyrrsettur í fjóra mánuði. Nánast eina flug félagsins var með lækningavörur og að koma fólki til heimalanda sinna á vegum stjórnvalda. 

Ryanair hóf áætlunarflug að nýju 1. júlí og er um 40% af fyrri áætlun í gildi. Stefnt er að aukningu í 60% í ágúst og 70% í september.

 Ryanair stefnir að því að flytja alls um 60 milljónir farþega á yfirstandandi rekstrarári. Það er um 60% samdráttur á milli rekstrarára. Aftur á móti er enn allt óljóst með framhaldið vegna hættu á annarri bylgju farsóttarinnar í Evrópu. 

Um helgina ákváðu bresk yfirvöld að allir þeir sem ferðist til Spánar þurfi að fara í sóttkví og má búast við að þetta hafi töluverð áhrif á Ryanair því flugleiðin milli Spánar og Bretlands er afar vinsæl hjá félaginu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK