Samstarf Nasdaq og Hinsegin daga heldur áfram

Nasdaq og Hinsegin dagar halda áfram samstarfi sínu.
Nasdaq og Hinsegin dagar halda áfram samstarfi sínu. Ljósmynd/Aðsend

Nasdaq á Íslandi og Hinsegin dagar munu starfa saman annað árið í röð. Augunum verður aftur beint að stöðu, réttindum og líðan hinsegin fólks í atvinnulífinu, sem og annarra minnihlutahópa.

Fjallað verður um hvernig hægt er að skapa fjölbreytnimenningu innan fyrirtækja sem verndar og styður allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund, kynhneigð, kynþætti, þjóðerni eða aðstöðumun af einhverjum toga, að því er segir í tilkynningu frá Nasdaq á Íslandi.

Í upphafi Hinsegin daga 2020 þann 4. ágúst verður viðskiptavinum og öðrum hagsmunaaðilum beggja aðila boðið að taka þátt í opnunarbjöllu markaðarins. Þá mun Richard Taylor, Vice President, Employee Experience hjá Nasdaq halda opið námskeið á vefnum þann 5. ágúst sem er ætlað stjórnendum fyrirtækja og öðrum áhugasömum. Þar verða hagnýt ráð gefin um hvernig koma megi á og hlúa að fjölbreytnimenningu innan fyrirtækja. Vefnámskeiðið verður auglýst á facebooksíðum Nasdaq Iceland og Hinsegin daga.

Þá mun Nasdaq ásamt Hinsegin dögum og Samtökunum 78 á næstu misserum standa að útgáfu leiðbeininga til fyrirtækja um hvernig skapa megi menningu fjölbreytni og án aðgreiningar innan fyrirtækja.

„Samstarf okkar við Hinsegin daga á síðasta ári snérist um að vekja atvinnulífið til vitundar um málefni hinsegin fólks og hvetja fyrirtæki til að setja á dagskrá umræðu um stöðuna hjá sér,“ segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq kauphallarinnar á Íslandi, í tilkynningunni. „Í ár færum við samstarfið upp á næsta stig og ætlum að vinna með Hinsegin dögum og Samtökunum 78 að því að búa til leiðbeiningar um hvernig skapa megi menningu fjölbreytni og án aðgreiningar innan fyrirtækja. Markmiðið er að allt starfsfólk óháð kyni, kynvitund eða kynhneigð sem og þjóðerni eða annars aðstöðumunar sé verndað gegn mismunun; það geti upplifað sig öruggt í starfi, líði vel og finni að það geti náð árangri innan fyrirtækisins.“

„Nasdaq hefur dýrmæta reynslu af því að skapa gott vinnuumhverfi fyrir hinsegin fólk og aðra minnihlutahópa, vinnuumhverfi sem einkennist af jafnrétti og fjölbreytileika,” segir Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, formaður Hinsegin daga. „Það er því afar ánægjulegt að halda samstarfinu áfram og geta boðið atvinnulífinu hagnýtar leiðbeiningar og aðstoð. Það er nefnilega ekki nóg að gera kröfu um breytingar, við þurfum einnig að bjóða upp á leiðbeiningar til að fyrirtæki geti breytt.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK