Boeing boðar frekari uppsagnir

Flugvélaframleiðandinn Boeing er í vandræðum.
Flugvélaframleiðandinn Boeing er í vandræðum. AFP

Tap flugvélaframleiðandans Boeing á síðasta ársfjórðungi var meira en búist var við, samkvæmt yfirlýsingu frá fyrirtækinu. Þá var það gefið til kynna að frekari uppsagnir væru væntanlegar í ljósi áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru á flugiðnaðinn.

Félagið hafði áður gripið til aðgerða til að mæta slæmum efnahagsaðstæðum og hætti til að mynda við að greiða hluthöfum út arð. Tíu prósentum starfsmanna fyrirtækisins var sagt upp og til stendur að hætta framleiðslu á 747-breiðþotunum. Þá stendur til að draga úr framleiðslu annarra véla sem mun óhjákvæmilega leiða til frekari uppsagna.

„Því miður þýða langdregin áhrif COVID-19 að við verðum að draga úr framleiðslu okkar og þá hefur minni spurn eftir þjónustu okkar í för með sér að við verðum að endurskoða fjölda starfsmanna okkar,“ sagði Dave Calhoun, forstjóri Boeing, í erindi til starfsmanna.

„Þetta eru erfiðar fréttir og ég veit að þær auka á óvissuna á erfiðum tímum. Við munum reyna að lágmarka áhrifin á starfsfólk okkar eins mikið og við mögulega getum,“ bætti hann við.

Í viðtali við CNBC sagði hann að aukningin í fjölda staðfestra kórónuveirusmita í Bandaríkjunum hefði haft í för með sér enn meiri óvissu og erfiðleika fyrir fyrirtækið. Hann sagðist vera bjartsýnn á að einhvern tímann á næsta ári væri búið að þróa bóluefni sem myndi hjálpa til við að endurlífga atvinnurekstur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK