Framtíðarvirði ÍSAL fært niður að fullu

Rio Tinto hefur fært niður allt bókfært virði vegna væntra …
Rio Tinto hefur fært niður allt bókfært virði vegna væntra tekna álversins í Straumsvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Alþjóðlega námufyrirtækið Rio Tinto, sem meðal annars rekur álverið í Straumsvík, birti árshlutareikning sinn í dag. Þar kemur meðal annars fram að fyrirtækið hafi fært niður  eignir fyrirtækisins vegna álversins um 269 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 37 milljörðum íslenskra króna. Er þar um að ræða bókfærða eign vegna væntra tekna í framtíðinni. Telur fyrirtækið ekkert virði í slíkri eign lengur og hefur niðurfært virði hennar niður í ekki neitt.

Rio Tinto kærði í síðustu viku Landsvirkjun til Samkeppniseftirlitsins og sagði raforkuframleiðandann hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína á raforkumarkaði. Kom jafnframt fram að ef Landsvirkjun léti ekki af „skaðlegri hátt­semi sinni“ hefði Rio Tinto ekki ann­an kost en að íhuga að segja upp orku­samn­ingi sín­um og virkja áætl­un um lok­un. Sagði Rio Tinto jafnframt að fyrirtækið gæti ekki haldið áfram að framleiða ál hér á landi nema verðlagningin væri gagnsæ og sanngjörn.

Í framhaldinu svaraði forstjóri Landsvirkjunar því til að Rio Tinto hefði neitað að aflétta trúnaði af samningi sínum við Landsvirkjun. Iðnaðarráðherra hefur jafnframt tekið undir að rétt væri að samningurinn yrði gerður opinber, en Rio Tinto hefur hins vegar gefið upp að fyrirtækið telji ekki rétt að opna orkusamninginn nema önnur stóriðjufyrirtæki geri það líka.

Í árshlutareikningi Rio Tinto kemur annars fram að félagið hafi hagnast um 3,3 milljarða Bandaríkjadala á árshlutanum, eða rúmlega 450 milljarða íslenskra króna. Er það samdráttur um 20% miðað við sama árshluta í fyrra, en þá var hagnaðurinn 4,1 milljarður dala.

Kórónuveirufaraldurinn hefur talsverð áhrif á afkomuna, en áhrifa faraldursins gætir meðal annars í hráefnaverði, en í uppgjörinu er sérstaklega vísað til þess að ál- og koparverð hafi lækkað á árshlutanum.

Sala fyrirtækisins á heimsvísu nam 5,6 milljörðum dala, en hafði á fyrri hluta ársins áður verið 6,4 milljarðar. Er það samdráttur um 12%.

Félagið áætlar að greiða út 2,5 milljarða dala í arð á árinu, en það jafngildir 155 sentum á hlut.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK