Tekjur Advania Data Centers jukust um 37,4%

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers.

Tekjur hátæknifyrirtækisins Advania Data Centers (ADC) jukust um 37,4% á árinu 2019 í kjölfar mikilla fjárfestinga við uppbyggingu félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Advania. Heildarvelta nam 51,5 milljónum dala, eða því sem nemur í dag tæpum sjö milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður af rekstrinum var 3,8 milljónir dala, eða sem nemur rúmum 500 milljónum króna, samanborið við þriggja milljóna dala hagnað árið áður. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 10,3 milljónum dala eða sem nemur 1,4 milljörðum króna, eða um 20% af tekjum félagsins, samanborið við 23% EBITDA-hlutfall árið 2018.

Lækkandi orkuverð kallar á hagræðingu

Rekstrarárið einkenndist af aukinni alþjóðlegri samkeppni, sem knúin var af lækkandi orkuverði á öllum helstu samkeppnismörkuðum, segir í tilkynningu. Aðstæður kölluðu því á talsverða hagræðingu í rekstri ADC, sem gripið var til í upphafi ársins.

„Rekstrarumhverfi gagnavera hérlendis hefur versnað þar sem orkuverð á Íslandi hefur heldur hækkað á undanförnum árum á meðan þróunin hefur verið öfug víða annars staðar. Þá njóta okkar keppinautar erlendis góðs af framþróun í gagnatengingum, en á Íslandi eru fáar og tiltölulega dýrar gagnatengingar sem nauðsynlegt er að bæta úr til að tryggja samkeppnisstöðu Íslands. Tíminn til að bregðast við þeirri þróun er núna, á meðan gagnaversiðnaðurinn er að vaxa og skjóta rótum á lykilstöðum til framtíðar en við erum nokkuð bjartsýn á að hagaðilar muni styðja við iðnaðinn á næstunni,“ er haft eftir Eyjólfi Magnússyni, forstjóra ADC, í fyrrnefndri tilkynningu.

Eftirspurn hefur dregist saman

Væntur vöxtur gagnaversiðnaðarins í Evrópu næstu fimm árin er um 15% á ári og verður hann drifinn af aukinni þjónustu við fyrirtæki sem þurfa aðgang að miklu reikniafli og gervigreindarlausnum.

„Staða ADC á þeim sviðum er sterk, þar sem félagið býr að mikilli reynslu af þjónustu við stóran hóp kröfuharðra viðskiptavina. Mælingar þeirra á meðal sýna mikla ánægju með þjónustu ADC, sem gefur góð fyrirheit um áframhaldandi samstarf og ný verkefni. Þá styrkja fjárfestingar í aukinni þjónustugetu, í samstarfi við leiðandi tæknifyrirtæki á heimsvísu á borð við Hewlett Packard Enterprise (HPE), Intel og Nvidia, stöðu félagsins.“

Eyjólfur segir útlitið ágætt en ljóst að samdráttur í hagkerfum heimsins vegna COVID-19 muni hafa umtalsverð áhrif á afkomu þessa árs.

„Eftirspurn hefur dregist saman en einnig hefur framleiðsla og afhending á tölvubúnaði til uppsetningar hjá okkur verið takmörkuð og tafið verkefni. Okkar áætlanir munu hliðrast, en félagið mun standa af sér þetta tímabundna ástand og nýta tímann vel til að þróa vöru- og þjónustuframboð sitt. Félagið býr að því að vera með sterkan viðskiptamannagrunn og hafa skapað sér nafn á sínu sviði, auk þess sem spennandi verkefni eru í fullum gangi. Uppbygging nýs 70 milljóna dollara gagnavers í Stokkhólmi í Svíþjóð er á áætlun og við hlökkum til að fylgja því úr hlaði.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK