Icelandair hefur náð samkomulagi við Boeing

Þotur Icelandair.
Þotur Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair Group hefur nú undirritað samninga við alla kröfuhafa og náð endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX-flugvéla.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group.

Þar kemur fram að efnisatriði samkomulagsins við Boeing er trúnaðarmál en felur í megindráttum í sér að félagið falli frá kaupum á fjórum vélum og áætlun um afhendingu sex MAX-véla sem eru útistandandi hafi verið breytt.

Gert er ráð fyrir að þær verði nú afhentar á tímabilinu frá öðrum ársfjórðungi 2021 fram til fyrsta ársfjórðungs 2022. Þá felur samkomulagið í sér frekari bætur fyrir stóran hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX-vélanna og verða þær greiddar út að mestu fyrir lok annars ársfjórðungs 2021. Samkomulagið styrkir lausafjárstöðu Icelandair Group og stuðlar að auknum sveigjanleika þegar kemur að skipulagi flotamála á næstu árum.

Til viðbótar við samkomulagið við Boeing hefur félagið náð samkomulagi við kröfuhafa um skilmálabreytingar. Samningar við kröfuhafa taka mið af því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri. Þeir eru háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.

Viðræður við íslensk stjórnvöld um útfærslu á slíkri lánalínu í samvinnu við Íslandsbanka og Landsbankann eru langt komnar. Eins og fram hefur komið verður lánafyrirgreiðsla stjórnvalda meðal annars háð því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár.

„Mikill áfangasigur fyrir félagið“

Nú þegar samningar við alla lykilhagaðila liggja fyrir gerir félagið ráð fyrir að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði og tímalínu á næstu dögum.

„Til viðbótar við langtímasamninga við flugstéttir, sem munu auka sveigjanleika og samkeppnishæfni Icelandair til lengri tíma, er samkomulagið við Boeing og samningar við lánardrottna mikill áfangasigur fyrir félagið. Allt eru þetta mikilvægir þættir í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins sem nú er á lokastigi,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.

Mikil vinna hefur átt sér stað á liðnum mánuðum við að endurskipuleggja rekstur Icelandair Group og búa félagið undir sókn á nýjan leik. Þar hafa starfsmenn félagsins unnið mikið þrekvirki. Þessi vinna mun án efa styrkja það fjárfestingartækifæri sem við munum bjóða í komandi hlutafjárútboði sem og rekstrargrundvöll félagsins til framtíðar,“ segir Bogi enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK