„Það verður söknuður að þessu“

Það verður söknuður að Nóatúni segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Það verður söknuður að Nóatúni segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Síðustu verslun Nóatúns sem staðsett er í Austurveri, verður lokað til frambúðar á föstudag. Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri Nóatúns, segir að um ákveðin tímamót sé að ræða. 

„Það er söknuður að þessu. Fyrsta Nóatúns-búðin opnaði í Nóatúni 17 árið 1965. En eins og þetta hefur verið á Íslandi síðustu ár hafa allar þessar búðir hægt og bítandi verið að færast yfir í lágvöruverslanir. Það er alltaf að verða þrengri og erfiðari rekstrargrundvöllur fyrir svona sérhæfðari verslanir. Þær eru orðnar fáar eftir, aðallega bara Fjarðakaup, Melabúðin og við,“ segir Trausti. 

Í október stendur til að opna nýja Krónuverslun í húsnæði Nóatúns. 

„Svo erum við náttúrulega í eigu Festi sem er að reka Krónuna og það er svakalega góður gangur á Krónunni, það hafði líka áhrif, að það hafi verið eftirspurn eftir því að fá Krónuna í hverfið. En við erum náttúrulega allt öðruvísi og sérhæfðari verslun, erum með kjötborð og heitan mat í hádeginu og svona.“

Allar vörur Nóatúns eru á 30% afslætti út föstudaginn. „Svo losum við bara allt út og það kemur teymi iðnaðarmanna strax eftir helgina og þá byrjar ballið. Það mun taka einhverjar vikur að snúa þessu öllu í gott Krónuhorf,“ segir Trausti.

Öllum starfsmönnum Nóatúns stendur til boða starf hjá Krónunni. 

„Ég býst við að langflestir starfsmenn Nóatúns hefji nýtt líf í gula búningnum,“ segir Trausti. 

„Nóatún og Hagkaup eru þessar elstu verslanakeðjur á Íslandi og nú er önnur að hverfa á braut. Það verður söknuður af þessu verður maður bara að segja. En það kemur bara eitthvað nýtt í staðinn,“ segir Trausti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK