Yfir 20% samdráttur

AFP

Samdráttarskeið er hafið í Bretlandi í fyrsta skipti í ellefu ár. Ástæðan er kórónuveirufaraldurinn. Samdrátturinn er 20,4% á öðrum ársfjórðungi en í gær var greint frá auknu atvinnuleysi í landinu. Í tilkynningu frá Hagstofu Bretlands segir að þetta sé mesti samdráttur í landinu frá því mælingar hófust.

Með samdrætti er átt við að framleiðsla þjóðarbúsins á vörum og þjónustu hefur minnkað. Einkennin eru meðal annars að þjóðarframleiðsla dregst saman og atvinnuleysi eykst. Stundum er notað sem þumalputtaregla að ef þjóðarframleiðsla dregst saman að raunvirði tvo ársfjórðunga í röð sé hagkerfið í kreppu. Kreppur geta vitaskuld verið misharðar, það er samdrátturinn verið mismikill og mislangur og ekki alltaf ljóst hvenær rétt er að tala bara um samdrátt og hvenær um kreppu að því er segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Í vorspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um alþjóðahagkerfið var gert ráð fyrir að í stað rúmlega 3% vaxtar á heimsvísu sem sjóðurinn spáði í ársbyrjun telur hann að heimsframleiðsla dragist að raungildi saman um 3% á árinu 2020. Er það meiri samdráttur en var í heimshagkerfinu árin 2008-2009 að sögn sjóðsins.

Í spá AGS má finna spá fyrir nokkra helstu hagvísa íslenska hagkerfisins. Telur sjóðurinn að verg landsframleiðsla (VLF) á Íslandi dragist saman um 7,2% í ár. Gangi sú spá eftir verður um að ræða mesta samdrátt undanfarinna 100 ára, en til samanburðar skrapp VLF saman um 6,8% árið 2009. Hins vegar er sá reginmunur á spánni nú og þróuninni fyrir áratug að spáð er 6,0% hagvexti hér á landi strax á næsta ári en árið 2010 fylgdi 3,4% samdráttur hinu mikla falli VLF árið áður. Þarna gerir að okkar mati gæfumuninn að efnahagsreikningar bæði einkageirans, hins opinbera og síðast en ekki síst þjóðarbúsins gagnvart útlöndum voru með traustara móti áður en áfallið reið yfir. Auk þess eru góðar líkur á að helsta útflutningsgreinin, ferðaþjónusta, taki nokkuð myndarlega við sér að nýju á komandi ári að því er segir í umfjöllun greiningardeildar Íslandsbanka.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK