Skoða sölu á hluta farsímakerfis Sýnar

Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Hann segir „fráleitt að takmarka …
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Hann segir „fráleitt að takmarka aðgengi íslenskra einkafyrirtækja að besta og ódýrasta búnaðinum til þess eins að þóknast utanríkispólitík Donalds Trump“. mbl.is/RAX

Til athugunar er að bjóða hluta farsímakerfis Sýnar til sölu, að því er haft er eftir Heiðari Guðjónssyni forstjóra fyrirtækisins í árshlutareikningi samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins. Heiðar segir að slík sala myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa. 

„Alþjóðlegir aðilar hafa mikinn áhuga á fjárfestingum í innviðum símfyrirtækja og margfaldarar í viðskiptum eru mun hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði.“

Sýn á og rekur vörumerkin Vodafone, Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og X977.

„Fráleitt“ að takmarka aðgengi til að þóknast Trump

Í árshlutareikningnum kemur Heiðar einnig inn á umræðu um uppbyggingu 5G-fjarskiptanets hérlendis.

Það væri fráleitt að takmarka aðgengi íslenskra einkafyrirtækja að besta og ódýrasta búnaðinum til þess eins að þóknast utanríkispólitík Donalds Trump [Bandaríkjaforseta]“, er haft eftir Heiðari. 

Þar á hann við uppbyggingu 5G á Íslandi en eins og hefur verið í umræðunni undanfarið kemur kínverski fjarskiptarisinn Huawei að stórum hluta að uppbyggingu 5G-fjarskiptanets hérlendis. Bandaríkin og fleiri lönd hafa takmarkað aðgengi Huawei að sinni 5G-uppbyggingu en banda­rísk stjórn­völd telja að Huawei ógni netöryggi verulega. 

Telur um hagsmuni almennings að ræða

Enn er beðið eftir athugasemdum frá eftirlitsaðilum vegna hugsanlegs samstarfs allra þriggja símfyrirtækjanna varðandi sameiginlega uppbyggingu 5G. Þar teljum við að hagsmunir almennings og þjóðaröryggi fari algerlega saman því verið væri að útvíkka birgjasambönd og tryggja sem besta samningsstöðu við erlenda framleiðendur,“ er haft eftir Heiðari. 

Tap Sýnar á öðrum ársfjórðungi nam 60 milljónum samanborið við 215 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Tap á fyrri árshelmingi ársins nam 410 milljónum króna samanborið við 455 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Inni í hagnaði fyrri helmings síðasta árs var söluhagnaður að fjárhæð 817 milljónir króna vegna sölu á færeyska dótturfélaginu Hey.

Arðsemi ef ekki hefði verið fyrir COVID

Tekjur Sýnar á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 5.352 milljónum króna sem er aukning um 329 milljónir frá sama tímabili árið 2019. 

„Fyrri árshelmingur sýnir batnandi rekstur. Handbært fé frá rekstri eykst umtalsvert og frjálst sjóðstreymi batnar stórlega,“ er haft eftir Heiðari vegna stöðunnar. 

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.753 milljónum króna samanborið við 1.219 milljónir króna á sama tímabili árið áður. Handbært fé frá rekstri á fyrri árshelmingi nam 2.805 milljónum króna samanborið við 2.038 milljónir króna á sama tímabili árið áður.

Heiðar telur að reksturinn hefði verið arðsamur ef COVID-19 hefði ekki komið til sögunnar. 

„Bæði auglýsinga- og reikitekjur minnkuðu umtalsvert á tímanum auk þess sem tekjur komu ekki inn að fullu af tveimur stærstu efnisréttunum, EM í fótbolta og Meistaradeildinni, líkt og ráð hafði verið fyrir gert.“

Færa meiri rekstur inn í Sendafélagið

Heiðar segir Sýn enn vera að hagræða og sjá tækifæri til að nýta fjármagn betur með samnýtingu fjárfestinga. 

Í því augnamiði er verið að færa meiri rekstur og fjárfestingar inn í Sendafélagið, sem er rekið með Nova. Samþykki eftirlitsaðila liggur þegar fyrir hvað þetta varðar. Aðgerðirnar munu bæta arðsemi rekstrar farsímakerfisins.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK