Hafa selt 92% íbúðanna

Hverfið Smárabyggð er suður af Smáralind í Kópavogi. Uppbyggingin er hluti af þéttingu byggðar og hluti af nýju miðbæjarsvæði.

Íbúðirnar eru í sex fjölbýlishúsum í Sunnusmára 16-25 og er síðastnefnda húsið ætlað 60 ára og eldri. Myndin af svæðinu sem fylgir þessari frétt er unnin af ONNO ehf.

Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir 54 tilboð hafa borist síðan kórónuveirufaraldurinn hófst. Miðað er við gild tilboð eða kaupsamninga.

„Það hefur gengið mjög vel í sumar. Júlí var annar stærsti mánuðurinn okkar í sölunni en þá seldust 18 íbúðir. Fyrri metmánuður var maí 2019 en þá seldust 19 íbúðir,“ segir Ingvi um gengið í sumar. Komin eru tilboð í allar íbúðir í Sunnusmára 24-28 og Sunnusmára 20-22 og ein íbúð er óseld í Sunnusmára 19-21.

Ingvi segir aðspurður að meðalstærð seldra íbúða í faraldrinum sé heldur stærri en fyrir faraldurinn.

„Það er samt sem áður ágætis blöndun. Við erum bæði að selja minni og stærri íbúðir,“ segir Ingvi.

Seldar á listaverði

Hann segir aðspurður að selt sé á listaverði og því hafi ekki verið veittur afsláttur af uppsettu verði.

„Við verðleggjum hvern reit þegar við byrjum að selja og síðan höfum við haldið því verði,“ segir Ingvi.

Spurður um áhrif vaxtalækkana á söluna segir Ingvi að slíkar breytingar hljóti að hafa áhrif.

Hann segir kaupendahópinn ekki hafa breyst nema hvað Sunnusmári 25 sé fyrir 60 ára og eldri. Aldurssamsetning kaupenda er sýnd á grafinu hér fyrir ofan.

Ingvi segir aðspurður að Kópavogsbær hafi kauprétt að örfáum íbúðum í hverfinu. Þá hafi færri en 10 íbúðir verið seldar fjárfestum. Því sé nær eingöngu um sölu til einstaklinga að ræða.

Uppsteypa á rúmlega 80 íbúðum í næsta áfanga er hafin. Þær koma til afhendingar eftir 16-18 mánuði.

Ingvi segir hugsanlegt að þær fari í sölu fyrir vorið eða sumarið 2021. Hann segir að faraldurinn hafi almennt ekki tafið uppbygginguna.

Lýkur eftir fjögur til fimm ár

Gert er ráð fyrir að byggðar verði 690 íbúðir í hverfinu eða 15 fleiri en áður var ráðgert, og er áformað að ljúka framkvæmdum eftir fjögur til fimm ár.

Að sögn Ingva var nýverið boðið upp á deilibíl í 201 Smára. „Það verður spennandi að sjá viðtökurnar en íbúar fá sérstök kjör og m.a. frítt áskriftargjald,“ segir Ingvi.

Handan Reykjanesbrautar hafa hundruð íbúða verið byggðar í Lindahverfinu á síðustu árum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK