Ekki sjálfkrafa bætur vegna árangurslausra aðgerða

Jóhannes Karl Sveinsson við upphaf aðalmeðferðar.
Jóhannes Karl Sveinsson við upphaf aðalmeðferðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögmaður Seðlabanka Íslands sagði í aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur að þó svo að aðgerðir Seðlabankans gegn Samherja hefðu ekki reynst bera árangur leiddi það ekki sjálfkrafa til bótaskyldu.

Hann vísaði í dóm sem féll í Aserta-málinu máli sínu til stuðnings.

Hann sagði að lagt hefði verið hald á gögn hjá Samherja, en engar eignir. Enginn hefði verið ákærður eða handtekinn og enginn blaðamannafundur verið haldinn.

Lögmaðurinn, Jóhannes Karl Sveinsson, sagði málarekstri Seðlabankans gegn Samherja hafa lokið með því að árið 2013 var fellt niður mál sem hafði verið kært til embættis sérstaks saksóknara. Síðar féll dómur um að stjórnvaldssektin sem var lögð á Samherja hefði verið felld niður.

Hann benti á að Seðlabankinn hefði ekki „vaðið inn“ nema að fá úrskurð frá dómara. Grunur hefði verið til staðar og því hefði verið farið í húsleitirnar. „Þegar við erum að meta sök þurfum við að átta okkur á hvaða aðstæður voru á Íslandi á þessum tíma,“ sagði hann og átti við hætta hefði verið á brotum fyrirtækja á gjaldeyrislögum.

Hann sagði engar sannanir liggja fyrir hendi að Seðlabanki Íslands hefði látið fréttmenn RÚV vita fyrirfram af húsleit hjá Samherja.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja. Kristinn Magnússon

Furðaði sig á reikningum 

Lögmaðurinn gagnrýndi einnig reikningana sem Samherji lagði fram í kröfu sinni vegna vinnu starfsmanna sinna í tengslum við málarekstur Seðlabanka Íslands. Hann sagði enga leið að gera sér grein fyrir orsakasamhengi á milli reikninganna og þeirrar vinnu sem var í raun og veru unnin vegna málsins. Meðal annars hefðu einhverjir reikningar verið tvíteknir. Slíkt gengi ekki varðandi sönnunarskyldu á bótaskyldu tjóna.

Jóhannes minntist einnig á reikninga frá lögmannsstofunni Lex upp á 55 milljónir króna. Um helmingur þeirra væri frá því þegar málið var í meðförum Seðlabankans. Sömuleiðis nefndi hann vinnu vegna sjómanna í Namibíu, flugferðir upp á 13,8 milljónir króna, reikninga frá CATO Lögmönnum upp á 33 milljónir  króna, LOGOS og Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK