Fer fram á gjaldþrotaskipti Play

Forstjóri Play segir að krafan muni engin áhrif hafa á …
Forstjóri Play segir að krafan muni engin áhrif hafa á rekstur félagsins. Haraldur Jónasson/Hari

Krafa var lögð fram í dag í Héraðsdómi Reykjaness þar sem farið var fram á gjaldþrotaskipti flugfélagsins Play. Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, staðfestir þetta í samtali við mbl.is. Arnar segir að þetta muni ekki hafa áhrif á rekstur félagsins og segir í tilkynningu hans til fjölmiðla að „Play sé komið til að vera“.

Krafan um gjaldþrotaskiptin er lögð fram af Boga Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Play. Í frétt Fréttablaðsins um málið er fullyrt að krafa Boga hljóði upp á um 30 milljónir króna vegna vangoldinna launa og láns sem Bogi veitti félaginu.

Arnar Már segir hins vegar bæði í samtali við mbl.is og í fréttatilkynningu að öll laun til Boga hafi verið greidd ásamt uppsagnarfresti. Aðspurður vildi Arnar ekki tjá sig um ástæðu þess að Boga var sagt upp.

Arnar segir í tilkynningu sinni að sárt sé að Bogi „bregði fæti fyrir fyrrum liðsfélaga sína með kröfum sem eru úr lausu lofti gripnar“.

Tilkynning Play í heild sinni:

Yfirlýsing vegna kröfu Boga Guðmundssonar á hendur PLAY

Okkur þykir auðvitað leitt að það hafi komið til þess að Bogi hafi ákveðið að fara þessa leið gegn félaginu og okkur fyrrverandi samstarfsfélögum hjá PLAY. Við unnum náið saman að því að koma PLAY á laggirnar og lögðum mikið undir þegar unnið var myrkranna á milli. Það varð hinsvegar ljóst í aðdraganda þess að nýir hluthafar komu að félaginu að Bogi ætti ekki lengur samleið með PLAY. Bogi hefur hinsvegar ekki fellt sig við þá staðreynd að hans áform gengu ekki upp. Laun Boga hafa verið gerð upp auk uppsagnarfrests en hann vill meira og krafa þessi er liður í því. Það er því sárt að Bogi skuli reyna að bregða fæti fyrir fyrrum liðsfélaga sína með kröfum sem eru úr lausu lofti gripnar. 

Endurskoðandi félagsins hefur staðfest rekstrarhæfi félagsins og að félagið geti staðið undir þeim skuldbindingum sem það hefur tekið sér á hendur.

Við óskum þess innilega að Bogi finni sér jákvæðari og sanngjarnari farveg í lífinu. PLAY er komið til að vera. Nú eru 36 starfsmenn hjá félaginu, allt að verða tilbúið fyrir fyrsta flugið. Við bíðum aðeins eftir því að slakað verði á sóttvörnum og að við fáum að þjónusta viðskiptavini okkar á grunni sanngjarnra leikreglna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK