Yfir 1.100 rafskútur fyrir lok mánaðarins

Rafskútur sem eru til leigu í Reykjavík eru nú rúmlega …
Rafskútur sem eru til leigu í Reykjavík eru nú rúmlega 900, en fyrir lok mánaðarins verða þær líklega komnar yfir 1.100. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvö ný fyrirtæki sem bjóða upp á leigu á rafskútum í Reykjavík komu á markaðinn hér á landi á síðustu dögum. Eru fyrirtækin þá í heild orðin fjögur talsins og er fjöldi skúta sem eru til leigu á götum borgarinnar rúmlega 900. Hins vegar má búast við að fjöldi þeirra verði kominn yfir 1.100 fyrir næstu mánaðamót.

Í fyrra komu fyrirtækin Hopp og Zolo á markað með rafskútur til leigu. Í þessum mánuði hafa svo bæst við fyrirtækin Wind og Kikk, en hið fyrrnefnda varð strax það fyrirtæki sem býður upp á flestar skútur, eða 600 talsins. Það má því með sanni segja að félagið komi inn á markaðinn af krafti. Mbl.is hefur ekki fengið staðfest frá Kikk hversu margar skútur fyrirtækið sé með, en samkvæmt heimildum mbl.is eru þær um 10 talsins.

Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopps, staðfestir í samtali við mbl.is að fyrirtækið sé með um 300 skútur í það heila í rekstri og að félagið verði aftur með skúturnar á götunum í vetur líkt og í fyrra. Adam Karl Helgason, framkvæmdastjóri Zolo, segir að hjá þeim sé fjöldinn nú um 25 hjól, en hins vegar búist fyrirtækið við 200 nýjum rafskútum til landsins á næstu dögum og að þær verði komnar í umferð í síðasta lagi 25. september.

Í heildina má því áætla að fjöldi rafskúta á götum borgarinnar sé nú um 935, en að fjöldinn fari yfir 1.100 fyrir lok mánaðarins.

Eyþór segir að Hopp ætli sér ekki að fjölga skútum í vetur, en að þessari auknu samkeppni frá Wind verði svarað á einhvern hátt í síðasta lagi í vor. Hann segist fagna allri samkeppni og að vöntun sé af skútum á markaðinum. Tekur hann fram að auðvitað hefði hann viljað að þetta væru þeirra hjól sem væru nú að koma á götuna, en að það gerði markaðinn heilsteyptan að fá virka samkeppni. „Þessi ferðamáti er klárlega framtíðin,“ segir hann og vísar þar til rafmagnshlaupahjóla, rafmagnshjóla og annarra lítilla rafknúinna farartækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK