Framtíð Air France-KLM í hættu án aðhaldsaðgerða

Wopke Hoekstra, fjármálaráðherra Hollands.
Wopke Hoekstra, fjármálaráðherra Hollands. AFP

Wopke Hoekstra, fjármálaráðherra Hollands, sagði í dag að sameinað ríkisflugfélag Frakklands og Hollands, Air France-KLM, myndi mögulega ekki lifa af núverandi krísu ef það nær ekki að lækka útgjöld sín. 

„Það er ekki sjálfgefið að Air France-KLM lifi af,“ sagði Hoekstra, en hann var í viðtali við hollenska ríkissjónvarpið. „Þeir munu þurfa að skoða kostnaðargrunn sinn jafnvel eins og staðan er nú. Og ef þetta ástand varir til loka næsta árs, munu þeir þurfa að skera enn frekar niður.“

Frönsk og hollensk stjórnvöld veittu félaginu neyðarlán og ríkisábyrgð í júlí upp á samtals um 10,4 milljarða evra. Á móti þurfti KLM að segja upp um 1.500 manns, eða um 20% af starfsmönnum sínum og frysta fyrirhugaðar launahækkanir, en Air France-hluti félagsins hugðist segja upp 6.500 manns í áföngum til ársins 2022. 

Hoekstra sagði að endurskipuleggja þyrfti flugfélagið til að stjórnvöld ríkjanna tveggja myndu íhuga að veita frekari aðstoð. „KLM verður alltaf mjög mikilvægt fyrir hollenskan efnahag. En spurningin er hvort það verði nóg.“ Flugfélagið hefur áætlað að það glati um 10 milljón evrum á dag vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK