Spá Icelandair myndi skila 17-50% ársávöxtun til 2024

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group og Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, fjármálastjóri félagsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gangi þær forsendur eftir sem Icelandair setur fram í áætlun sinni fyrir hlutafjárútboðið gæti vænt ársávöxtun félagsins út árið 2024 verið á bilinu 17-50%. Þetta kom fram á kynningarfundi fyrir hlutafjárútboð félagsins sem fram fór í morgun. Rétt er þó að taka fram að hlutabréfakaup eru alltaf áhættufjárfesting og óvíst hvort áætlanir félagsins muni ganga eftir, meðal annars með hliðsjón af óútreiknanleikanum með Covid-19 faraldurinn.

Fram kom á fundinum að horft væri til þess að lítið væri flogið til næsta vors eða sumars í áætlunum Icelandair. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, tók þó fram að hægt væri að bregðast við fyrr og setja flugáætlun á fullt t.d. ef bóluefni kæmi til eða ef eftirspurn myndi aukast mikið.

Félagið áætlar að rekstrartap (Ebit) á þessu ári verði 363 milljónir dala, en það nemur um 51 milljarði íslenskra króna. Þá er gert ráð fyrir að rekstrartap á næsta ári verði um 43 milljónir dala, eða um 6 milljarðar. Sagði Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála félagsins, að tapið væri ekki meira þar sem búist væri við að félagið væri áfram í híði stóran hluta ársins.

Félagið gerir ráð fyrir tapi á þessu ári og því …
Félagið gerir ráð fyrir tapi á þessu ári og því næsta, en að eftir það verði afkoman í plús. Graf/Icelandair

Hins vegar er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður verði árið 2022 upp á 78 milljónir dala, eða um 11 milljarða og 135 milljónir dala og 175 milljónir dala árin 2023 og 2024.

Eva sagði jafnframt að ekki væri áformað í áætlun Icelandair að notast við lánalínu sem Íslandsbanki og Landsbankinn hafa opnað og ríkið hefur tryggt upp á 90%. Hins vegar þyrfti að ganga á hana ef flugrekstur væri enn í lágmarki eftir sumarið og næsta haust.

Lausafjárstaða miðað við áætlun Icelandair. Neðsta línan sýnir stöðuna án …
Lausafjárstaða miðað við áætlun Icelandair. Neðsta línan sýnir stöðuna án aðgerða. Næsta með áhrifum frá samningum við lánadrottna og birgja. Gula línan sýnir áhrif af hlutafjárútboðinu, en með því er línan yfir núlli. Efsta línan er svo möguleikinn á ríkistryggðu lánalínunni. Graf/Icelandair

Eiginfjárhlutfall félagsins er nú 11% en fer upp í 24% með hlutafjárútboðinu. Sagði Eva að í sviðsmynd Icelandair myndi hlutfallið fara lægst niður í 14% meðan reksturinn væri enn að taka við sér, en færi svo hækkandi.

Þróun eiginfjárhlutfalls samkvæmt áætlun Icelandair.
Þróun eiginfjárhlutfalls samkvæmt áætlun Icelandair. Graf/Icelandair

Svana Huld Linnet, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans, fór á fundinum yfir vænta ávöxtun af bréfum félagsins. Sagði hún að miðað við þær forsendur sem Icelandair hefði sett fram um reksturinn gæti vænt ávöxtun verið á bilinu 17-50%, líkt og sjá má á meðfylgjandi næmnitöflu sem hún kynnti. Slíkt fer þó allt eftir því hvort áætlanirnar gangi eftir.

Næmnitaflan sem kynnt var á fundinum.
Næmnitaflan sem kynnt var á fundinum. Tafla/Icelandair

Bogi var á fundinum spurður út í mögulegan vöxt inn á Asíumarkað, en fyrir nokkrum árum var áformað að Icelandair myndi hefja beint flug þangað árið 2019. Bogi sagði að í áformum Icelandair núna væri ekki gert ráð fyrir slíku flugi og að félagið hafi ekki einbeitt sér að slíkum hugmyndum. Hins vegar gæti það komið til skoðunar ef eftirspurn væri eftir því og lítil áhætta. Nefndi hann í því samhengi að með aukinni laxaframleiðslu hér á landi og mikilli eftirspurn frá mörgum löndum í Asíu gæti slíkt verið spennandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK