Treystir starfsmönnum lífeyrissjóðsins

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist bera fullt traust til starfsmanna lífeyrissjóðs verzlunarmanna til þess að taka faglegar ákvarðanir um mögulega aðkomu sjóðsins að hlutafjárútboði Icelandair.

Áhættugreining sjóðsins á mögulegum fjárfestingum sé ein sú dýpsta sem ráðist hefur verið í. Ragnar segir jákvætt að Icelandair og ASÍ hafi náð sátt í deilu sinni en erfitt sé að fullyrða um að það hafi áhrif á mögulega fjárfestingu sjóðsins í Icelandair.

Mikið í húfi

„Ég treysti starfsmönnum sjóðsins og þeim sem ákvarðanir taka fyrir hönd sjóðsins í þessu máli til þess að byggja ákvarðanir á faglegum grunni,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is.

„Það hefur verið lögð gríðarleg vinna í að greina þá áhættu sem er fólgin í fjárfestingum í Icelandair. Þetta er án efa ein stærsta greining sem hefur verið unnin í aðdraganda svona fjárfestingar hjá sjóðnum.

Ábyrgð starfsfólks sjóðsins er mikil og það er mikið í húfi. Því óska ég þess að þeir sem að málinu komi fái andrými til þess að vinna störf sín vel og af fagmennsku.“

Ákvarðanir byggðar á faglegum grunni

Ragnar segir erfitt að segja til um hvort sátt Icelandair og ASÍ í deilu þeirra á milli muni hafa áhrif á ákvörðun sjóðsins um mögulegar fjárfestingar í Icelandair.

„Ákvarðanir í þessu máli hafa verið látnar í hendur lífeyrissjóðsins sjálfs og stjórnarmanna hans. Ég treysti því að þeir sem að mögulegri ákvörðun koma leggi alla pólitík til hliðar og taki ákvarðanir um málið byggðar á faglegum grunni,“ segir Ragnar en bætir þó við að öllum sé frjálst að tjá skoðanir sínar á mönnum og málefnum.

Alltaf jákvætt þegar sátt næst

Greint var frá því í dag að mögulega stæði til að birta sameiginlega viljayfirlýsingu ASÍ og Icelandair til þess að ljúka deilu milli aðilanna tveggja, sem upp spratt vegna hópuppsagna allra flugfreyja félagsins í júlí. Drífa Snædal sagði í samtali við mbl.is enga yfirlýsingu hafa verið undirritaða á miðstjórnarfundi ASÍ í morgun.

Ragnar Þór segist ekki hafa séð endanlega yfirlýsingu ASÍ og Icelandair en hann segir að alltaf sé jákvætt þegar fólk nái saman.

„Ég hef ekki séð endanlega yfirlýsingu og get því ekki tjáð mig efnislega um hana en auðvitað er jákvætt ef aðilar vinnumarkaðsins og samtök launafólks ná saman í deilum sínum. Það er ætíð markmið þeirra sem að svona málum koma að ná sátt.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK