Eftirspurn umfram framboð: 11 þúsund hluthafar

Flugtak. Mikil eftirspurn var frá almennum fjárfestum og verður eignarhlutur …
Flugtak. Mikil eftirspurn var frá almennum fjárfestum og verður eignarhlutur þeirra í félaginu um 50% í kjölfar útboðsins.

Umframeftirspurn eftir hlutum í hlutafjárútboði Icelandair nam u.þ.b. 85%, frá bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum, en útboðsgengi í báðum tilboðsbókum var ein króna á hlut.

Útboðinu lauk klukkan 16 en boðnir voru til sölu 20 milljarðar nýrra hluta.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Icelandair. Segir í henni að alls hafi borist yfir níu þúsund áskriftir, samtals að fjárhæð 37,3 milljarðar króna.

Fram kemur að stjórn félagsins hafi samþykkt áskriftir að fjárhæð 30,3 milljarðar og ákveðið að nýta heimild til stækkunar útboðsins. Fjöldi seldra hluta verði því 23 milljarðar.

Nýjum hlutum fylgja 25% áskriftarréttindi, eða sem nemur 5,75 milljörðum hluta.

Áskriftir yfir einni milljón skertar um 37%

Úthlutun er sögð hafa verið í samræmi við skilmála útboðsins. Núverandi hluthafar sem tóku þátt í útboðinu hafi fengið fulla úthlutun í samræmi við hlutafjáreign þeirra.

Áskriftir að jafnvirði 1 milljón kr. eða lægri verði ekki skertar, en hlutfallsleg skerðing annarra áskrifta í báðum tilboðsbókum sé um 37%.

Áskriftir frá u.þ.b. 1.000 starfsmönnum hafi borist og verði þeim þó úthlutað án skerðingar.

Eignarhlutur almennra fjárfesta um 50%

„Mikil eftirspurn var frá almennum fjárfestum og verður eignarhlutur þeirra í félaginu um 50% í kjölfar útboðsins. Fjöldi hluthafa í félaginu í kjölfar útboðs verður yfir 11.000. Vegna umframeftirspurnar í útboðinu virkjaðist ekki sölutryggingin,“ segir í tilkynningunni.

Bent er á að fjárfestar geti nálgast upplýsingar um úthlutun í útboðinu eigi síðar en í lok dags 18. september 2020 með því að fara inn á áskriftarvef útboðsins á vefsíðu Landsbankans, https://www.landsbankinn.is/utbod/icelandair, og nota sömu aðgangsauðkenni og þeir notuðu til að skrá áskrift sína í útboðinu. Gjalddagi og eindagi áskriftarloforða í útboðinu er 23. september 2020.

Úthlutun eigi síðar en 15. október

„Greiddir hlutir verða afhentir þegar hlutafjáraukning hefur verið skráð hjá Fyrirtækjaskrá og verða hlutirnir gefnir út í gegnum Nasdaq CSD Ísland í síðasta lagi 9. október 2020. Að teknu tilliti til lögbundinna tímamarka en stefnt er að því að afhenda nýju hlutina fyrr. Gert er ráð fyrir að nýju hlutirnir verði teknir til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland eigi síðar en þann 12. október 2020.

Hlutafé félagsins er 5,4 milljarðar hluta og eftir útgáfu nýrra hluta verður heildarhlutafé alls um 28,4 milljarðar hluta. Úthlutun og skráning áskriftarréttinda verður eigi síðar en 15. október 2020. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka voru umsjónaraðilar útboðsins.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK